Nýtt fyrirkomulag hingað til tilgangslaust

Skimanir á Keflavíkurflugvelli hófust 15. júní og 123 þúsund hafa …
Skimanir á Keflavíkurflugvelli hófust 15. júní og 123 þúsund hafa verið skimaðir síðan þá. Morgunblaðið/Íris

Fyrir tíu dögum tók gildi sú ráðstöfun við landamærin að þeir sem kæmu til landsins þyrftu að fara í fimm daga sóttkví eftir fyrstu sýnatöku og fram að seinni sýnatöku. Í fréttum RÚV í kvöld kom fram að enginn hefði hingað til greinst með veiruna í seinni sýnatöku eftir að hafa greinst smitlaus í þeirri fyrri.

Það bendir til þess að ráðstöfunin hafi hingað til verið ónauðsynleg en henni er ætlað að grípa þá sem koma í fyrri skimun svo nýlega smitaðir að þeir greinast ekki strax. Veiran kemur síðan fram nokkrum dögum síðar og ætti þá að finnast í seinni skimun. Þá kom einnig fram að 123 þúsund hafi verið skimuð frá upphafi við landamærin en 12 reynst hafa haft veiruna við skimun en ekki greinst. Það er 0,01% hlutfall.

Faraldurinn í rénun þrátt fyrir nokkur dagleg smit

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að spáin fyrir þróun seinni bylgju kórónuveirufaraldursins á Íslandi sé að kristallast í þeim tölum sem hafa verið að koma fram síðustu daga. 

Hann segir spána vera að ganga eftir. Þetta verði 1-6 smit á dag fram yfir mánaðamót og meira og minna út september. Síðustu fjóra daga hafa þetta verið 6, 3, 3 og svo nú síðast 5 smit á dag. Ef litið er á kúf virkra smita má þó sjá að núverandi bylgja er hægt og rólega í rénun eftir að hafa náð hámarki 8. ágúst, þegar 102 voru í einangrun.

Markvert er að æ stærra hlutfall þeirra sem greinast með innanlandssmit eru í sóttkví við greiningu. „Það hlutfall er að hækka jafnt og þétt, sem gefur okkur vísbendingu um að við séum nær því að ná utan um þetta. Þá erum við að spotta fólkið og koma því í skjól áður en smit er staðfest,“ segir Rögnvaldur. 

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bendir á þetta á Twitter í dag og segir að þetta sé til marks um að smitrakning gangi vel og verið sé að virða sóttkví. 

Engin hólfaskipting á íþróttaleikjum

Breyttar sóttvarnaráðstafanir tóku gildi á miðnætti í gær sem fólu það í sér að áhorfendur megi mæta á íþróttaleiki á nýjan leik. Eins og Rögnvaldur bendir á, mega aðeins 100 koma saman á hverjum viðburði og hólfaskipting er ekki leyfð um sinn. Undanskilin öllum þessum ráðstöfunum eru börn fædd 2005 og síðar.

Þrír leikir í efstu deild knattspyrnu kvenna fóru fram í dag og fjórir fara fram hjá körlum á morgun. Þar munu þessar reglur gilda en Rögnvaldur segir að vel geti verið að takmörkin verði rýmkuð eða að boðið verði upp á að nota hólfaskiptingu ef vel gengur. Reglurnar gilda til 10. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert