Áhorfendur heimilaðir á nýjan leik

Stuðningsmenn mega mæta aftur á knattspyrnuleiki.
Stuðningsmenn mega mæta aftur á knattspyrnuleiki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk sóttvarnayfirvöld hafa gefið leyfi fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum hér á landi en þó með ákveðnum skilyrðum.

Einstaklingar þurfa að virða tveggja metra regluna, ef þeir eru ekki í nánum tengslum hver við annan, og þá verða ekki fleiri en hundrað manns að hámarki í stúku eða stæði. 

Heimildin hefur nú þegar tekið gildi, í samræmi við auglýsingu heilbrigðisyfirvalda og tilkynningu ÍSÍ.

„Í dag (föstudag) tók gildi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 25. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 10. september kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19,“ segir í tilkynningu frá ÍSÍ.

„Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnayfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda.

Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Iðkendur íþrótta eru undanþegnir tveggja metra fjarlægðarreglu á æfingum og í keppni. Á það eingöngu við um keppnis/æfingasvæðið sjálft.

Stærsta breytingin sem fylgir nýjum reglum er að sóttvarnayfirvöld hafa veitt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru að tveggja metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 100 manns að hámarki í stúku/stæði.

Mest er hægt að fá leyfi fyrir tveimur stúkum/stæðum við hvern leikvang séu þau aðskilin og enginn samgangur á milli þeirra. Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar,“ segir ennfremur í tilkynningu ÍSÍ.

Fréttatilkynninguna er hægt að lesa í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert