„Hann er með hníf!“

Harkaleg hópslagsmál brutust út í Bankastræti á ellefta tímanum í gærkvöldi. Um leið voru þau mjög fjölmenn og bæði íslenskir og erlendir menn börðust, sem í sumum tilvikum leiddi til alvarlegra áverka. Enginn er þó í lífshættu.

Frásögn fólks sem mbl.is hefur rætt við stemmir við það sem sést í myndbandinu að ofan, að mikill fjöldi manna tókst á og af hörku. Allt Bankastrætið var undirlagt af átökunum og sagði einn sem mbl.is ræddi við að hann hefði á löngum skemmtanalífsferli aldrei séð önnur eins slagsmál. 

Þrír fóru á sjúkrahús eftir slagsmál í miðbæ Reykjavíkur í …
Þrír fóru á sjúkrahús eftir slagsmál í miðbæ Reykjavíkur í gær. Fjórir voru yfirheyrðir en ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir neinum. Ljósmynd/Skjáskot

Glerflöskum var kastað í fólk og á einhverjum tímapunkti heyrðist að sögn sjónarvottar æpt: „He has a knife.“ Ekki hefur fengist staðfest að hnífum hafi verið beitt en lögreglan hefur gefið út að talið sé að einhverjir hafi verið með eggvopn.

mbl.is veit til þess að í það minnsta einn slasaðist alvarlega og fór á sjúkrahús eftir mikla blæðingu. Tveir enn fóru á sjúkrahús. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að meiðsli þessara manna séu ekki alvarleg en um skurði og rot hafi verið að ræða í einhverjum tilvikum.

Reyndu fyrst að stilla til friðar

Eftir að átökin höfðu brotist út lágu einhverjir um hríð alblóðugir í götunni þar sem gangandi vegfarendur og aðrir hlúðu að þeim uns aðstoð barst.

Af vettvangi kl. 23.10.
Af vettvangi kl. 23.10. Ljósmynd/Aðsend

Samkvæmt sjónarvotti á staðnum beindust aðgerðir lögreglu framan af fyrst og fremst að því að stilla til friðar og því náðist ekki að taka höndum menn sem þó hefðu augljóslega tekið þátt í slagsmálunum. Margeir segir þetta rétt: „Við erum enn að reyna að ná utan um þetta. Þetta var talsverður fjöldi sem var þarna á ferð,“ segir hann.

Ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir neinum en fjórir hafa verið yfirheyrðir. Mennirnir sem í hlut áttu voru bæði íslenskir og albanskir.

Í myndbandinu hefur hljóð verið fjarlægt á sumum stöðum svo að ekki sé unnt að greina hver tekur myndbandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert