Milljarður í viðbótarframlag til hjúkrunarfræðinga

Frá einum af samningafundum hjúkrunarfræðinga hjá ríkissáttasemjara í sumar.
Frá einum af samningafundum hjúkrunarfræðinga hjá ríkissáttasemjara í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerðardómur hefur komist að niðurstöðu í kjaradeilum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. 

Gerðardómurinn úrskurðar að ríkið skuli leggja Landspítalanum til aukna fjármuni sem skuli ráðstafað til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á grundvelli stofnanasamnings, alls 900 milljónir króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings aðila. Í þessari fjárhæð felst heildarviðbótarframlag til spítalans að meðtöldum launatengdum gjöldum. 

Þá skal ríkið á sama hátt leggja öðrum heilbrigðisstofnunum sínum sem hafa almenna hjúkrunarfræðinga í þjónustu sinni til aukna fjármuni sem skal ráðstafað á grundvelli stofnanasamninga. Alls skal til viðbótar núverandi fjárveitingum leggja stofnunum til sem nemur 200 milljónum króna á ári frá 1. september 2020 til loka gildistíma kjarasamnings aðila.

Dóminn skipuðu þau Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og aðstoðarríkissáttasemjari sem var jafnframt formaður, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktor í sálfræði, og Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og doktor í heilsuhagfræði.

Gerðardómurinn var skipaður í samræmi við miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem var samþykkt af samningsaðilum 27. júní að lokinni atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga. Samningsaðilar náðu samkomulagi um öll meginatriði kjarasamnings utan afmarkaðra atriða launaliðs, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert