Stefnt að háskólaútibúi á Austurlandi

Einar Már Sigurðarson, formaður Austurbrúar, sambands sveitarfélaga á Austurlandi, og …
Einar Már Sigurðarson, formaður Austurbrúar, sambands sveitarfélaga á Austurlandi, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu samninginn. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Samstarfssamningur um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi var undirritaður á Reyðarfirði um helgina. Markmið samningsins er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi og er ráðgert að fyrsta skrefið í þá veru verði frumgreinadeild sem taki til starfa haustið 2021. 

Þetta kemur fram á vef menntamálaráðuneytisins. 

„Það eru sterkir grunnatvinnuvegir á Austurlandi í sjávarútvegi, áliðnaði og ýmsum verk- og tæknigreinum. Á þeim innviðum verður byggt í þessu verkefni sem vonir standa til að muni efla samfélög og atvinnulíf í fjórðungnum. Ég fagna samvinnu við sveitarfélögin á Austurlandi sem standa saman að í þessu verkefni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í tilkynningu.    

Við skipulag háskólaútibúsins verður horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi og í framhaldi af námi við frumgreinadeild er fyrirhugað að boðið verði upp á grunnnám í hagnýtri iðnaðartæknifræði til B.Sc.-gráðu, þriggja og hálfs árs nám til alls 210 ECTS-eininga. Sem stendur er ekki boðið upp á tæknifræðinám utan höfuðborgarsvæðisins, að því er segir í tilkynningu. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman