Útilokar ekki stærri skjálfta

Jarðskjálftahrinan er að færast nær Húsavík.
Jarðskjálftahrinan er að færast nær Húsavík.

Ekki er útilokað að stærri jarðskjálfti eða skjálfti af svipaðri stærð verði á sömu slóðum og þeir sem gengið hafa yfir Norðurland í dag. 

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, við K100.

Sá stærsti til þessa mældist 4,6 að stærð, laust fyrir klukkan 15 í dag. Annar af stærðinni 4 mældist rúmum tveimur tímum síðar. 

Hann segir jarðskjálftahrinuna sem varð vestar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu vera að færast nær Húsavík. Spenna sé að losna frá kerfinu.

Ómögulegt er að vita, að sögn Einars, hvenær annar stór skjálfti geti orðið. „Við þurfum líka að sjá hvernig hrinan þróast áfram. Það er ekki hægt að spá fyrir um jarðskjálfta en við getum fylgst með þeim og reynum að áætla út frá því hver þróunin getur orðið,“ segir hann.

Einar hvetur fólk á skjálftasvæðinu til að fara á vef almannavarna og skoða fyrstu viðbrögð við jarðskjálftum til að vera með það í kollinum hvernig bregðast á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert