Frumubreytingar greinst en ekki krabbamein

Nánast allar konurnar 108 hafa nú þegar komið í skoðun …
Nánast allar konurnar 108 hafa nú þegar komið í skoðun eða eru búnar að bóka tíma í skoðun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hluti þeirra 108 kvenna sem hafa verið kallaðar til frekari skoðunar vegna mistaka í greiningu sýna í skimun fyrir leghálskrabbameini er með frumubreytingar í leghálsi en engin kvennanna hefur greinst með krabbamein, að sögn Ágústs Inga Ágústs­son­ar, yf­ir­lækn­is og sviðsstjóra leit­ar­sviðs Krabba­meins­fé­lags­ins.

Frumubreytingar í leghálsi geta valdið leghálskrabbameini en Ágúst segir að í flestum þeirra tilvika sem um ræðir hafi það ekki haft úrslitaáhrif á þróun krabbameins í leghálsi að konurnar voru kallaðar inn nú en ekki eftir næstu skimun.

„Í flestum tilvikum skiptir það ekki sköpum en það eru einstaka tilfelli sem við höfum fundið sem við viljum halda þétt utan um,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is.

Geta bókað tíma um leið

Nánast allar konurnar 108 hafa nú þegar komið í skoðun eða eru búnar að bóka tíma í skoðun. 

„Þær eru í forgangi og fá allar flýtimeðferð. Þær geta bókað tíma alveg um leið ef þær kæra sig um að koma til okkar og við setjum öll þeirra sýni í flýtimeðferð þannig að það kemur svar innan tveggja daga ef það þarf ekki að gera neitt nema bara skoða,“ segir Ágúst. 

„Það hafa engin krabbamein komið fram. Í einhverjum tilvikum frumubreytingar.“

„Það er mikil vinna fram undan en við erum langt …
„Það er mikil vinna fram undan en við erum langt komin, við erum að verða komin í gegn um þennan skafl,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson. Skjáskot/RÚV

Smásjáin annar ekki öllum sýnum

Spurður hvort um sé að ræða frumubreytingar á alvarlegu stigi segir Ágúst: „Það sem við metum alvarlegt er þegar krabbamein er komið en það er ekki tilfellið.“

Nú vinnur Krabbameinsfélagið að endurskoðun 6.000 sýna. Þau teygja sig aftur til júní 2017 og fram til janúar 2020. Öll sýni sem hafa ekki farið í gegn um tölvustýrða smásjá sem var tekin í gagnið í janúarmánuði síðasta árs eru endurskoðuð. 

„Tækið annar ekki öllum sýnum. Það er ákveðinn hluti sem fer fram hjá tækinu og þann hluta erum við að endurskoða,“ segir Ágúst. Spurður hvers vegna sýni sem eru eldri en frá júní 2017 séu ekki endurskoðuð segir hann að konur sem hafi komið í skoðun fyrir júní 2017 ættu að vera búnar að koma aftur í skoðun. 

3.300 sýnanna hafa þegar verið greind. „Það er mikil vinna fram undan en við erum langt komin, við erum að verða komin í gegn um þennan skafl. Þetta er sannarlega mikið álag vegna þess að þarna bætist ofan á allt það sem við erum hvort sem er að skoða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert