Grímur verði útvegaðar í skólum

Þórólfur leggur áherslu á grímunotkun og einstaklingsbundnar sóttvarnir, nú í …
Þórólfur leggur áherslu á grímunotkun og einstaklingsbundnar sóttvarnir, nú í þriðju bylgju faraldursins. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann hygðist ekki leggja til að sóttvarnareglur yrðu hertar, að undanskilinni framlengdri lokun skemmtistaða. Mælir hann fremur með grímunotkun á stöðum þar sem ekki er unnt að viðhafa eins metra reglu.

Sóttvarnalæknir mælir með grímunotkun á listviðburðum, á tónleikum og í leikhúsi annars vegar og leggur hins vegar til að í framhalds- og háskólum verði boðið upp á grímur, þar sem ekki er hægt að bjóða upp á fjarkennslu.

„Það er ekki nóg að vera með grímu heldur þarf að nota hana rétt,“ sagði Þórólfur og hvatti fólk til þess að nota grímur eftir leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út af almannavörnum.

Boð og bönn skipti ekki mestu

Spurður hvort um sé að ræða stefnubreytingu í viðbrögðum við faraldrinum sagði Þórólfur að boð og bönn skiptu ekki mestu; áhersla væri lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Þórólfur sagði aðspurður að það myndi koma á óvart ef stjórnvöld hertu aðgerðir án þess að hann hefði lagt slíkt til. Þó væri það inni í myndinni en hann sendir sínar tillögur ávallt til ráðherra áður en hann upplýsir almenning á upplýsingafundi. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að auka viðbúnað upp á neyðarstig.

mbl.is