Senda öllum bakvörðum tölvupóst

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir.

Nú vinna heilbrigðisyfirvöld að því að hafa samband við alla þá sem eru á lista bakvarðasveitar heilbrigðisþjónustunnar og kanna hvort fólkið sé tilbúið í að halda bakvarðastörfum sínum áfram í endurvakinni bakvarðasveit. Þetta segir Alma D. Möller landlæknir í samtali við mbl.is.

„Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar hefur alltaf verið virk og þegar mest lét voru yfir 1.160 í henni. Í vor var fólki gefinn kostur á að fara af listanum og þá fækkaði í 1.125,“ segir Alma í samtali við mbl.is

„Síðan erum við núna að senda öllum á listanum tölvupóst og segja frá því að verið sé að endurvekja bakvarðasveitina og athuga hvort fleiri vilji skrá sig úr hennig og hverjir vilja vera virkir. Það er líka aðeins verið að breyta skráningunni. Frétt verður birt um það sem verður á áberandi stað á vefsíðu Stjórnarráðsins,“ segir Alma.

Koma í stað þeirra sem eru í sóttkví

Helst vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í bakvarðasveitina, ekki til að sinna COVID-sjúklingum heldur til þess að hlaupa í skörð þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem þurfa að fara í sóttkví. 

Bakvarðasveitirnar eru tvær en bakvarðasveit velferðarþjónustu samanstóð af 1.300 bakvörðum þegar mest lét, að sögn Ölmu. Bakverði vantar einnig í þá sveit og er þá það sama uppi á teningnum, vöntunin er vegna starfsfólks sem er í sóttkví og/eða einangrun. 

Bakv­arðasveit heil­brigðisþjón­ust­unn­ar var sett á fót í upp­hafi COVID-19 far­ald­urs­ins í vor þegar ljóst var að mik­il­væg­ar heil­brigðis­stofn­an­ir gætu lent í mönn­un­ar­vanda vegna veik­inda­fjar­vista starfs­fólks eða fjar­vista vegna sótt­kví­ar. Þetta fyr­ir­komu­lag gaf góða raun og gerði heil­brigðis­stofn­un­um kleift að manna í stöður með hraði þegar á þurfti að halda.

mbl.is