Tvær þjóðir í landinu

Þorgerður Katrín formaður á setningu stafræns landsþings Viðreisnar.
Þorgerður Katrín formaður á setningu stafræns landsþings Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessari kreppu fylgir misskipting,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, áframhaldandi formaður Viðreisnar, í setningarræðu stafræns landsþings Viðreisnar í Hörpu í dag, en Þorgerður var endurkjörinn formaður flokksins með 341 atkvæði af 363 skömmu eftir setningarræðuna.

„Sumar atvinnugreinar hrynja. Aðrar þrífast betur og sumar vel. Margir hafa misst vinnuna og lífsviðurværi sitt og við skynjum sterkt að ferðaþjónustan, menningar- og listastarfsemi og veitingarekstur hefur orðið fyrir þungu höggi. Það sama gildir um ákveðin byggðalög. Það eru allt í einu tvær þjóðir í landinu: Þjóðin, sem kreppan bítur – og bítur fast, og þjóðin sem kreppan lætur enn sem komið er í friði,“ sagði Þorgerður og að á slíkum stundum reyndi á hvort við vildum sýna að við værum ein, sterk þjóð, hvort við vildum sýna að við gætum sótt styrk og öryggi í samstarfi með öðrum þjóðum og hvort ætlun okkar sé að sækja fram en ekki staðna.

Til viðbótar við þau stóru verkefni að verja heilbrigði og efnahag þjóðarinnar í ljósi kórónuveirufaraldursins sagði Þorgerður að til lengri tíma litið væri þriðja stóra verkefnið að verja líðan þjóðarinnar.

Ekki á móti til að vera á móti

„Hver var afstaða Viðreisnar? Við buðum upp á samvinnu til þess að stjórnmálin gætu axlað sameiginlega ábyrgð á erfiðum ákvörðunum. Því við trúðum því í einlægni að í samstöðunni fælist dýrmætur kraftur til uppbyggingar og samheldni með minni hættu á samfélagsrofi og tilheyrandi afleiðingum. Ríkisstjórnin kaus að fara aðrar leiðir. Það breytti ekki okkar sýn. Vegna þess að Viðreisn er stjórnmálaafl sem þorir að fara ótroðnar slóðir. Vera ekki á móti eingöngu til að vera á móti líkt og fyrri tíma stjórnmálamenn hafa predikað. 

Þegar komið hafi að aðgerðum í þágu atvinnulífsins hafi Viðreisn stutt heilshugar þá mikilvægu hugsun sem ríkisstjórnin boðaði í upphafi faraldurs: að gera frekar meira en minna og gera hlutina strax frekar en seinna.

„Við gátum því ekki leynt vonbrigðum okkar þegar í ljós kom að það sem stjórnarflokkarnir gátu komið sér saman um var frekar minna en meira og fremur í seinna fallinu en strax.“

„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var reist á þeirri einu hugsun að halda hlutum óbreyttum. Veikleiki hennar verður augljós þegar óvæntar aðstæður og áskoranir koma upp, því stjórn kyrrstöðunnar er ekki best til þess fallin að bregðast hratt og örugglega við. Hvað þá að taka djarfar ákvarðanir. Taka stór skref. En auðvitað er það þannig að í hamförum eins og þessum kemst engin ríkisstjórn hjá því að gera einhver mistök. En ríkisstjórnin hefði komist betur frá hlutunum ef hún hefði fylgt eftir sínum eigin markmiðum og yfirlýsingum: Þið munið - að taka stór skref strax. Að gera meira frekar en minna,“ sagði Þorgerður. 

Svigrúmið væri hins vegar enn til staðar. Enn væri hægt að bregðast betur við, og nefndi hún þar nokkur áhersluefni Viðreisnar: lækkun tryggingargjalds, að ráðast í arðbærar fjárfestingar og verkefni ríkisins um allt land og setja kraft í uppbyggingu raforkukerfisins og annarra innviða svo Ísland verði fremst í flokki í vistvænum samgöngum og rafrænni þjónustu.

„Og við viljum leggja áherslu á aðgerðir sem henta konum jafnt sem körlum, ungu fólki og þeim sem eldri eru, horfum til landsbyggðar sem og höfuðborgar. Hættum að etja saman ólíkum landshlutum og styðjum nauðsynlega uppbyggingu þar sem tækifærin felast. Borgarlínan, grænt laxeldi, líftækni, stórfelld kolefnisjöfnun, samgöngur í lofti, á láði og legi, ferðaþjónusta, listir og nýsköpun. Eitt verkefni útilokar ekki önnur. Það er ekki stjórnvalda að velja einn sigurvegara heldur skapa umgjörð sem þarf til að þeir geti orðið margir og á öllum sviðum um land allt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina