Uppsafnaður fjöldi smita gæti orðið allt að 1650

Vísindafólk Háskóla Íslands unnu að gerð spálíkansins.
Vísindafólk Háskóla Íslands unnu að gerð spálíkansins. mbl.is/Arnþór

Vísindafólk frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa unnið að gerð spálíkans um líklega þróun þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins hér á landi að beiðni sóttvarnalæknis. 

Fyrsta innanlandssmitið í þriðju bylgju er miðað við 11. september og voru þá samkomur takmarkaðar við 200 manns, líkt og enn er nú. Fram kemur á Covid-síðu háskólans að álag á heilbrigðiskerfið hefur verið að aukast síðustu daga og innlögnum á sjúkrahús vegna kórónuveirunnar farið fjölgandi. Búist er við spá fyrir fjölda spítalainnlagna bráðlega ásamt uppfærðri spá fyrir þróun greindra smita. 

Þróun nýgreindra smita og spábil á Íslandi. Dekksta spábilið er …
Þróun nýgreindra smita og spábil á Íslandi. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á að það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Myndin hér að ofan sýnir þróun greindra innanlandssmita á Íslandi frá 11. september og spá fyrir næstu þrjár vikur. Efra grafið sýnir nýgreind smit og neðra grafið sýnir uppsafnaðan fjölda smita. Punktarnir á myndunum sýna raunverulegan fjölda smita samkvæmt nýjustu gögnum.

Spáin bendir til þess að nýgreindum smitum fari hægt fækkandi. Á næstu dögum er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 20 til 40 á dag, en gætu orðið hátt í 70 nýgreind smit, þó á því séu minni líkur. Eftir þrjár vikur er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 10 til 30 á dag, en gætu orðið hátt í 60 nýgreind smit. Í þessari bylgju er uppsafnaður fjöldi 509 smit, frá 11. september, en eftir þrjár vikur er líklegt að uppsafnaður fjöldi smita verði á bilinu 800 til 1100 tilvik en gæti orðið allt að 1650 smit. 

mbl.is