Hæstiréttur klofnaði í nauðgunarmáli

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni í máli konu sem var ákærð fyrir hlutdeild í nauðgun árið 2016. Í febrúar sýknaði Landsréttur konuna en málið fór síðan fyrir Hæstarétt sem kemst að þeirri niðurstöðu að ómerkja beri dóminn og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Athygli vekur að fimm dómarar við Hæstarétt dæmdu í málinu og skiluðu tveir þeirra sératkvæði en þeir eru þeir ósammála meirihlutanum og telja að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Konan hafði verið ákærð ásamt kær­asta sín­um fyr­ir að nauðga þroska­skertri stúlku árið 2016 með því að hafa gefið henni óþekkta töflu og látið hana reykja kanna­bis­efni sem sljóvgaði stúlk­una. Meðan málið var tekið fyr­ir í héraðsdómi lést maður­inn og var ákær­an gegn hon­um þar af leiðandi felld niður. Héraðsdóm­ur komst að þeirri niður­stöðu að kon­an væri sek af hlut­deild í nauðgun og var hún dæmd í tveggja ára fang­elsi, en Landsrétt­ur sneri þeirri niður­stöðu við í febrúar sem fyrr segir.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að héraðsdómurinn hefði talið að hlutdeild konunnar hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og afhafnaleysi.

Með dómi Landsréttar var hún aftur á móti sýknuð af ákærunni þar sem talið var að hún yrði ekki dæmd sek um hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa einungis horft á samskipti kærasta síns og stúlkunnar.

Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að Landsréttur hefði látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja hefði að konan hefði veitt atbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti mannsins með því að liggja við hlið hans og stúlkunnar meðan á kynferðismökum stóð þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194. gr. almennra hegningarlaga.

Þá kom fram að í röksemdum hins áfrýjaða dóms hefði hvorki farið fram mat á fyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun stúlkunnar og þýðingu hennar við úrlausn málsins né að tekin hefði verið afstaða til þess hvort máli skipti í því samhengi að atvik hefðu gerst í lokuðu herbergi á heimili parsins.

Einnig yrði ekki séð að við mat á sakargiftum í dóminum hefði verið tekin afstaða til þýðingar þess liðsmunar sem maðurinn hefði skapað gagnvart stúlkunni með nærveru sinni.

Var því talið af röksemdum í dóminum yrði ekki ráðið að fram hefði farið heildarmat á þeim atvikum sem sönnuð þótti og aðstæðum eins og þeim hefði verið lýst í ákæru við úrlausn um hvort háttsemi konunnar uppfyllti við þær aðstæður lágmarksskilyrði hlutdeildar í nauðgunarbroti.

Hefðu því með hinum áfrýjaða dómi ekki verið uppfyllt skilyrði laga um meðferð sakamála. Var af þessum sökum talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert