20 manna samkomutakmarkanir á mánudaginn

Katrín Jakobsdóttir ræddi við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Sóttvarnaráðstafanir verða hertar og 20 manna samkomutakmarkanir verða settar á, líklegast á mánudaginn. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að lokum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum rétt í þessu.

Ríkisstjórnin fór þar yfir tillögur sóttvarnalæknis, en aðgerðunum er ætlað að sporna við fjölda smita sem hafa komið upp síðustu daga..

Þá sagði Katrín að skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum yrði gert að loka. Sundlaugar fá hins vegar að vera áfram opnar, en með meiri takmörkunum en nú er.

Óbreyttar ráðstafanir verða með grunnskóla og leikskóla, en ráðstafanir með aðra skóla sem og varðandi útfarir verða auglýstar nánar þegar auglýsing verður birt, líklegast á morgun.

Katrín sagði að gripið væri til þessara ráðstafana í ljósi óhugnalegs fjölda smita undanfarna daga. Sagði hún einnig að of stór hluti þeirra sem hefðu smitast væru ekki í sóttkví. „Það segir okkur að mjög víða er samfélagslegt smit,“ sagði Katrín.

Á fundinum fór ríkisstjórnin yfir tillögur sóttvarnalæknis og mun heilbrigðisráðherra fara yfir þær í kvöld og líklegast birta auglýsingu um hertar aðgerðir á morgun. Katrín sagði að í tillögunum fælist að grípa til verulega hertra aðgerða.

„Stóru skilaboðin eru að við munum herða aðgerðir verulega,“ sagði Katrín eftir ríkisstjórnarfundinn.

Spurð hvort að einhugur hafi verið innan ríkisstjórnarinnar með þessar aðgerðir sagði Katrín svo vera. Hins vegar væru þetta stórar ákvarðanir sem hefðu kallað á umtalsverðan tíma til að ræða málin og fara yfir þau.

Katrín sagði að þær aðgerðir sem kynntar væru núna myndu gilda í tvær vikur hið minnsta.

Katrín Jakobsdóttir mætir á ríkisstjórnarfundinn í dag.
Katrín Jakobsdóttir mætir á ríkisstjórnarfundinn í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is