Svindl og skýjaborgir

Ekki senda peninga til erlendra fjárfesta. Þegar peningarnir eru komnir …
Ekki senda peninga til erlendra fjárfesta. Þegar peningarnir eru komnir úr landi er nánast ómögulegt fyrir einstakling að endurheimta þá. AFP

Heildartap Íslendinga í fjárfestasvindli (Investment fraud) á netinu sem hefur verið tilkynnt til lögreglu er að nálgast hálfan milljarð á síðustu tveimur árum. Nýlegar kærur hlaupa á tugum milljóna. Þetta kemur fram í viðvörun frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.

Lögreglan vill vara sérstaklega við þessari tegund af svindlum og segir að búast megi við aukningu á þessum brotum vegna COVID-19-faraldursins.

„Af hverju skiptir Covid máli? Af því að nú eru margir að upplifa tvennt. Efnahagslegar þrengingar og að þau hafa meiri frítíma. Þegar kreppir að þá verður fólk útsettara fyrir því að reyna að bæta hag sinn. Þá er aukin hætta á að falla fyrir silkimjúkum loforðum um ábatasamar fjárfestingar og örvænting gerir það á sama hátt blindara fyrir hættumerkjum. Fólk hefur líka meiri tíma til að rekast á auglýsingar og sjá svona tilboð,“ segir í færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Taka alla peninga sem þau geta

„Þau sem standa að svindlinu leggja net. Þau auglýsa á samfélagsmiðlum og jafnvel hringja beint í fólk. Þau leggja mikið á sig að komast í símasamband og koma fram eins og vinalegir ráðgjafar sem vilja ekkert frekar en að hjálpa fólki að ávaxta peningana sína.

Þau nota flókin og fagleg orð og bjóða alls kyns fjárfestingar þó að rafmyntir komi oft við sögu. Þau vísa fólki á flottar heimasíður og senda alls kyns skjöl og staðfestingar með tölvupósti. Allt þetta virkar mjög faglegt.

Brotaþolar fá jafnvel heimasvæði á vefsíðum þeirra til að fylgjast með fjárfestingum sínum. En allt er þetta svindl og skýjaborgir. Engin eiginleg fjárfesting á sér stað. Þetta er allt falskt.

En þau taka alla peninga sem þau geta. Þau biðja um greiðslur frá fólki á margvíslega reikninga og staðfestingar þegar greiðslur hafa verið framkvæmdar. Síðan flytja þau peninga hratt á milli landa og gera slóðina órekjanlega. Síðan fara þau að herja á að fá meira og meira.

Það koma alltaf upp ný flækjustig en ef brotaþoli sendir meira af peningum þá er [honum] lofað að allt bjargist. Þannig festa þau brotaþola í vef endalausra flækjustiga og kreista út meiri og meiri peninga. Bara ein greiðsla í viðbót og þá verður allt gott. Nema það er líka lygi, þetta snýst allt um að hafa peninga af fólki.

Þessir svindlarar eru mjög færir og þetta er skipulögð glæpastarfsemi. Þau nota ýmiss konar sálfræðiaðferðir. Þau eru vinaleg, þau segjast hafa lagt peninga sjálf inn í fjárfestinguna, þau segjast jafnvel hafa fengið fjölskyldu sína til að leggja til fé til þess að setja brotaþola í ábyrgðarstöðu.

Þau hafa hringt grátandi yfir því að fé tapaðist en lofa að ef þau fái eina greiðslu í viðbót þá geti þau náð öllu til baka. Þau hafa jafnvel í hótunum. Allt er byggt á lygi en oft er brotaþoli of fastur í þeim lygavef til þess að geta áttaði sig á stóra samhenginu. Þá er alltaf vonin um að allt sé ekki tapað og muni reddast ef þau senda eina greiðslu enn,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook.

Sérstakir áhættuhópar

Eldra fólk sem á sparifé er í miklum áhættuhópi. Það skortir oft tölvulæsi til að skynja hættur á netinu. Þá nota svindlararnir oft stór hugtök eins og rafmyntir sem fólk hefur heyrt um en skilur ekki alveg. Er ekki kominn tími til að græða sjálfur á öllum þessum rafmyntum? Ráðgjafinn er tilbúinn að sjá um allt þetta „flókna“, þú bara sendir peninga.

„Þá er einnig erfitt fyrir lögreglu og aðra að vara þennan hóp við og ná til hans. Því er um að gera að ræða við sína nánustu. En það er líka rétt að taka fram að þessar aðferðir eru mjög þróaðar og alls konar fólk með alls konar bakgrunn getur orðið þessu að bráð.“

„Svo þegar fólk fer að tapa þá fer það oft að skammast sín og tekur á sig skömmina. Það leggur inn meira fé til að redda þessu í von um að allt lagist. Það áttar sig ekki á því að bak við svindlið er mjög mikil vinna og undirbúningur hjá svindlurunum sem hafa þróað aðferðir sem festa fólk í þessum svikamyllum.

Brotaþoli þarf stuðning, ekki skömm, enda á skömmin heima hjá þeim sem standa bak við glæpina,“ segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert