Dóri DNA á meðal umsagnaraðila áfengisfrumvarps

Samtök íslenskra handverksbrugghúsa sendu inn umsögn og sögðu að frumvarpið …
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa sendu inn umsögn og sögðu að frumvarpið gæti komið í veg fyrir hrun í greininni. mbl.is/​Hari

Ýmsir hafa sterkar skoðanir á frumvarpi til breytinga á áfengislögum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fram. 89 umsagnir hafa borist um frumvarpið en umsagnarfrestur rennur út á morgun. 

Áslaug legg­ur til að rekst­ur inn­lendra vef­versl­ana með áfengi í smá­sölu til neyt­enda verði heim­ilaður, sömuleiðis leggur hún til að smærri brugg­hús­um verði gert kleift að selja áfengt öl í smá­sölu á fram­leiðslu­stað.

Umsagnirnar eru mislangar og ítarlegar, sumar ekki nema nokkrar línur en aðrar nokkrar blaðsíður. Bæði lýsir fólk yfir miklum stuðningi við frumvarpið og mótstöðu. 

Rekur raunir Berjamós

Á meðal þekktra umsagnaraðila er rithöfundurinn, rapparinn og athafnamaðurinn Halldór Laxness Halldórsson, gjarnan þekktur sem Dóri DNA. Halldór er annar eigandi Berjamós sem sérhæfir sig í innflutningi á léttvíni frá Evrópu. 

Áfengisverslun Ríkisins og reglur hennar hafa gert okkur mjög erfitt um vik. Ég gæti talið upp ótal dæmi, vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn framleiðandans er ekki stærra en 1,3 mm, sem er skylda samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins. Samt er umrætt vín ítalskt, framleitt í Evrópu og selt um alla Evrópu,“ segir t.a.m. í umsögn Halldórs sem rekur raunir Berjamós í umsögninni.

Hann telur að frumvarpið sé í raun ekki byltingarkennt þar sem neytendur hafa hingað til fengið að kaupa sér áfengi á netinu, bæði í gegnum ÁTVR og frá útlöndum. 

Vín gengur kaupum og sölum í Reykjavík. Þeir sem vilja ölva sig gera það án nokkurs vanda,“ skrifar Halldór. 

„Kannski, með því að treysta fagfólki og fólki sem er ástríðufullt fyrir víni til þess að selja það sjálft, má í leiðinni vinda ofan af ofdrykkjumenningu Íslendinga og reyna að innleiða kúltíveraðri nálgun á víndrykkju.“

Telja að aukið aðgengi leiði af sér aukna misnotkun

Það eru þó ekki allir jafn jákvæðir fyrir breytingunum og Halldór. Til dæmis sendi Foreldrafélag gegn áfengisauglýsingum inn umsögn þar sem bent er á að í íslensku þjóðfélagi sé eðlilegt að aðgengi að hættulegum vörum sé takmarkað.

„Það er eflaust einhver hópur sem vill aukið aðgengi að þessum vörum en aukið aðgengi landsmanna að þessum vörum mun trúlega þýða aukna misnotkun og jafnvel takmarkaðra vöruúrval. Er ekki eðlilegt að vörur sem eru hættulegar lúti reglum sem takmarka aðgengi að þeim? Áfengi er hættulegt, það er misnotað, það hefur áhrif á fleiri aðila en þann sem neytir þess. Það liggur alveg fyrir og allir átta sig á því að aukið aðgengi að vörum þýðir að öðru jöfnu aukna neyslu. Því mun frumvarpið, ef það verður samþykkt, auka neyslu landsmanna á áfengi og því mælum við gegn því að það verði samþykkt,“ segir í umsögn samtakanna. 

Umsagnirnar má nálgast hér

mbl.is

Bloggað um fréttina