„Mjög erfið og sár aðgerð“

Landverðir á Þingvöllum í einkennisbúningum sínum.
Landverðir á Þingvöllum í einkennisbúningum sínum. mbl.is/Sigurður Bogi

Átta landvörðum og einum verkefnisstjóra Þingvallaþjóðgarðs var sagt upp störfum í morgun. Uppsagnirnar taka gildi 1. nóvember, en þjóðgarðsvörður segist vona að hægt verði að endurráða starfsmennina með vorinu. 

„Við þurftum að grípa til þessara uppsagna vegna þess að það hefur verið mikið tekjufall á þessu ári og það er fyrirséð áfram á næsta ári. Tekjugrunnur Þjóðgarðsins hefur að miklu leyti verið byggður upp á sértekjum, það er að segja bílastæðagjöldum, gjöldum í Silfru og tjaldsvæðum og öðru. Þetta hefur farið ansi hratt á þessu ári og Þjóðgarðurinn hefur verið í hálfgerði gjörgæslu þetta árið. Ég hef verið í miklum samskiptum við ráðuneytið til þess að reyna að fá úr því skorið hvernig við getum staðið að þessu,“ segir Einar Ásgeir Sæmundsen þjóðgarðsvörður í samtali við mbl.is. 

Einar segir að framlag til Þjóðgarðsins sé það sama í fjárlögum fyrir næsta ár og hefur verið undanfarin ár. Það hafi því þurft að grípa til ráðstafana til að stemma stigu við sértekjutapið sem hefur orðið af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Einar Ásgeir Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Einar Ásgeir Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í fjárlagafrumvarpinu núna er bara gert ráð fyrir sama fasta framlagi til Þjóðgarðsins og hefur verið en það þarf í raun og veru töluvert meira til. Þess vegna þarf að horfa til sérteknanna og það er fyrirséð að þær verði ekki sérlega miklar á næsta ári svo ég er í rauninni að stilla okkur af miðað við næsta ár. Covid hefur komið mjög þungt inn í okkar rekstur og fram að þeim tíma má í rauninni segja að sértekjurnar hafi verið um 70 til 80% af tekjum Þjóðgarðsins. Það var í raun og veru verið að bíða eftir því að fá það staðfest frá ráðuneytinu hvort að það yrði hærra framlag í ár til að stemma við sértekjutapinu en það varð ekki,“ segir Einar. 

Engir ferðamenn á Þingvöllum 

Einar segir litla umferð fólks vera á Þingvöllum. 

„Það má segja að Þingvellir séu eiginlega mannlausir dag eftir dag eins og víða annars staðar. Mér sértekjunum höfum við á undanförnum árum getað byggt upp öfluga þjónustu og innviði og náð að halda í við fjölgun ferðamanna því við höfum geta nýtt sértekjurnar sem hafa vaxið í því hlutfalli. Nú er það alla vega tímabundið ekki að koma inn til okkar svo það þarf að grípa til einhverra ráða,“ segir Einar. 

„Strax með vorinu munum við örugglega fara að sjá einhverja hreyfingu á fólki, hvort sem það verða fyrst bara Íslendingar, og svo ef landamærin opnast og það fara að koma hingað ferðamenn munum við alltaf sjá það fyrst hjá okkur á Þingvöllum. En á meðan er þarf að vera hægt að skila rekstraráætlun sem stenst rök og er byggð á einhverjum raunveruleika. Þetta er mjög erfið og sár aðgerð til þess að reyna að standast það,“ segir Einar. 

Einar segist vona að hægt verði að endurráða starfsmennina með vorinu. 

„Við horfum sannarlega til þess að þessi hópur sem er að fara komi aftur þegar byrjar að rofa til eftir því sem hægt er. Þetta er ástand sem við vonum öll að taki enda og þá munu Þingvellir rísa mjög hratt upp. Í sumar var töluvert af Íslendingum og það var rosalega gleðilegt að heyra loksins íslensku og sjá Íslendinga á ferðinni. Þegar landamærin voru opnuð í júní var svo töluvert um ferðamenn þrátt fyrir þau höft sem voru á flugi og það munaði töluvert um að fá þá. En með þeim takmörkunum sem settar voru á í ágúst sáum við sértekjurnar bara hverfa. Ég er að vona að við verðum að koma aftur inn með starfsmenn í apríl eða maí. Þegar ferðamenn fara að koma sjáum við hreyfinguna skila sér mjög hratt til okkar,“ segir Einar. 

Uppsagnirnar taka gildi um næstu mánaðamót og láta starfsmennirnir því af störfum 1. febrúar. Einar segir að áfram verði starfsmenn á Þingvöllum til að halda uppi starfsseminni. 

„Landverðirnir fara ekki frá okkur fyrr en eftir áramót, en þetta gildir frá og með næstu mánaðamótum til 1. febrúar. Þá þurfum við að sjá til úr hverju við höfum að spila. Það eru nokkrir starfsmenn enn þá sem munu halda uppi starfseminni. En það eru engir ferðamenn á Þingvöllum núna.“

mbl.is