„Ég er bara foj út í landann“

Sigurveig Margrét Stefánsdóttir heimilislæknir kveðst „foj“ út í landa sína …
Sigurveig Margrét Stefánsdóttir heimilislæknir kveðst „foj“ út í landa sína og telur Íslendinga hafa gleymt sér í kórónuveirufaraldrinum, álagið á heilsugæslulækna hafi verið gríðarlegt síðan í vor. Ljósmynd/Facebook

„Kveikjan á bak við þessi skrif mín er kannski aðallega það að fólk virðist ekki skilja alvöruna á bak við það að eiga að fara í sóttkví þegar einhver úr fjölskyldunni er í sýnatöku.“

Þetta segir Sigurveig Margrét Stefánsdóttir, heimilislæknir á Heilsugæslunni Höfða, í samtali við mbl.is, en umræðuefnið er harðorður pistill Sigurveigar á Facebook þar sem hún kveðst „bara foj“ út í Íslendinga sem hún telur ekki hegða sér sem skyldi í heimsfaraldri kórónuveirunnar.

„Ég þraukaði alveg mars-maí enda vann ég svo mikið að ef ég hefði ekki verið í skóm hefði ég slitið mig upp að hnjám marga daga og vikur,“ ritar heimilislæknirinn í pistli sínum. „Maður var pínu mikið varkár svo í allt sumar, sat og stóð langt í burtu, engin partý eða hittingar eiginlega allan tímann, jú eitt afmæli eða tvö, utandyra bæði. Aldrei í bíó og hlaupið inn í búðir, varkárni í öllu á ferðalagi um landið sem við reyndar leyfðum okkur en með skynsemina alltaf að leiðarljósi,“ ritar Sigurveig sem er fjögurra barna móðir menntuð í Danmörku og sneri heim til Íslands sem heimilislæknir að námi loknu árið 2007.

Skall á með fullum þunga í febrúar

„Í vor snerist þetta allt um tengingu við einhverja hópa en í dag er það ekki lengur málið, sértu með einhver einkenni heldurðu þig heima og ferð í sýnatöku,“ segir Sigurveig, innt eftir því hver kveikjan að skrifum hennar hafi verið.

„Núna tekur það oft innan við fjóra fimm tíma að fá svar við sýnatöku, í vor tók þetta allt upp í nokkra daga,“ segir heimilislæknirinn og rifjar upp gjörbreytt ástand síðan fyrsta bylgja veirunnar skall á Íslandi í vor.

Sigurveig hefur ekki setið auðum höndum þegar að barneignum kemur. …
Sigurveig hefur ekki setið auðum höndum þegar að barneignum kemur. Hér eru frá vinstri synir hennar Kári Stefán, Magnús Steinar, Snorri Marteinn og Sverrir Þór. Ljósmynd/Aðsend

„Yfir nóttu þarna í kringum 28. febrúar þegar Covid skall á með fullum þunga gjörbreyttust störf allra heilsugæslna. Á einni nóttu gerðist það að við fórum að taka við öllum símtölum og fyrirspurnum kringum Covid, við þurftum þá að fara að meta einkennin og útdeila sýnatökum daglega. Starfsemi okkar umturnaðist og við fengum engan undirbúning, en það var ekki eins og önnur heilsufarsvandamál stoppuðu á meðan, það var ekki fyrr en í ágúst sem farið var að miðstýra þessu með sýnatökum í Orkuhúsinu,“ segir Sigurveig og kveðst ekki hafa upplifað sambærilegt á sínum ferli.

50 sýnatökur á dag

Starfinn er ærinn heima fyrir, Sigurveig er fjögurra barna móðir, í sambúð með Ágústi Bjarka Magnússyni véltæknifræðingi, en er auk þess ekki illa í ætt skotið, heimilislæknirinn er dóttir Stefáns Benediktssonar, fyrrverandi þjóðgarðsvarðar, og Drífu Kristinsdóttur söngkonu.

„Hver heilsugæsla á landinu sinnti allt að 50 sýnatökum á dag, oftast bara í bílum á bak við heilsugæslur og við þurftum að læra þetta allt á einni nóttu, ótal hluti sem höfðu aldrei verið hluti af okkar starfi, til dæmis að veita almenningi ráðgjöf í sambandi við þessa farsótt. Svínaflensan 2009  bliknar algjörlega í samanburði við þetta,“ segir Sigurveig sem lauk læknisfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla árið 2007.

„Ég kem þaðan með þrjú börn og byrja í sérnámi í heimilislækningum eftir kandídatsár hér á Íslandi,“ segir Sigurveig og hlær við, en segja má að hún hafi marga fjöruna sopið í læknisfræðinni en hún greindist með krabbamein í skjaldkirtli þegar hún hóf nám í Kaupmannahöfn og var hvött til að hætta þegar námi, hún kæmist aldrei í gegnum krabbameinsmeðferð og háskólanám í læknisfræði og hvað þá stuttu síðar með barn númer tvö á leiðinni. „Ég blés nú bara á það,“ segir dr. Sigurveig og skellihlær og varð lendingin sú að hún kom heim frá Kaupmannahöfn með þrjú börn og krabbameinslaus eftir geislameðferð.

Staðið okkur vel

Sigurveig hafði töluverðan áhuga á að gerast bráðalæknir og einnig lyflæknir og toguðust þær greinar á við heimilislækningarnar sem hún að lokum endaði í. „Svo fór að ég réð mig á Landspítalanum í þrjú ár og starfaði þar sem sérfræðingur á bráðadeild. Svo undir lok 2017 tók ég mér ársleyfi og fór aftur í heilsugæsluna sem var mjög heppilegt fyrir mig miðað við fjölskylduaðstæður. Heilsugæslan sem ég vinn nú á er ein fimm sjálfstæðra heilsugæslna á höfuðborgarsvæðinu og við erum samtals með 21.000 skjólstæðinga,“ segir Sigurveig frá.

En hvernig telur hún íslensku þjóðina hafa staðið sig í Covid-stríðinu miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir?

„Ég held að við höfum staðið okkur bara rosalega vel. Við höfum náttúrulega haft einstakar aðstæður í að einangra og fylgjast með og fylgja eftir. Það er náttúrulega við ramman reip að draga þegar farið er út í að loka öllu landinu en þessi seinni bylgja er gríðarlega hörð,“ segir Sigurveig.

Ágúst, Sigurveig og afkvæmin eru útivistarfólk sem mest má vera.
Ágúst, Sigurveig og afkvæmin eru útivistarfólk sem mest má vera. Ljósmynd/Aðsend

„Manni sýnist líka vera komin ákveðin Covid-þreyta í fólk, það er orðið kærulausara og þess vegna hefur veiran líklega náð að dreifa sér víðar,“ segir Sigurveig. „Nú er maður að lesa um það að verið sé að stöðva bóluefnaframleiðslu í annað skipti og ég er ekkert rosalega bjartsýn á að við séum að fá eitthvert bóluefni í bráð. Og þá þurfum við að venja okkur á nýtt norm, að stöðva þessa hrinu. Við erum komin kannski hálft ár aftur í tímann miðað við í sumar þegar voru að greinast þrír og þrír en ekki 80 á dag. Þetta eru ekki svona þung veikindi eins og í vor en við þurfum samt alltaf að vernda þessa hópa sem eru hvað berskjaldaðastir,“ segir Sigurveig með áherslu.

28.000 símtöl

„Ég gat nú ekki gert upp við mig hvort ég ætti að verða læknir eða leikari,“ segir Sigurveig og brosglettan heyrist nánast gegnum símann. Spurningin snýst um hvers vegna læknisfræðin hafi orðið fyrir valinu. Hún segist þó að lokum hafa veitt heilbrigðisstéttunum brautargengi og sjái ekki eftir því. Vinnuálagið hafi þó gjörbreyst með innrás kórónuveirunnar.

„Það er mjög hæglega hægt að segja að vinnuálagið hafi að minnsta kosti þrefaldast í mars og apríl á öllum vígstöðvum og svo stór hluti af álaginu hefur líka lent á Læknavaktinni, símsvörun þar jókst úr 7.500 símtölum á mánuði í 28.000, þetta eru engar venjulegar tölur í álagi og okkur hefur fundist svolítið gleymast að ræða það í fjölmiðlum þar sem alltaf er bara verið að tala um Landspítalann en ekki heilsugæsluna,“ segir Sigurveig.

Eins kveður hún ekki mega gleyma því andlega álagi sem almenningur hafi sætt í faraldrinum. „Við [heimilislæknar] tölum við fjölda fólks í þeim efnum, fólk óskar eftir aðstoð okkar í andlegum efnum, til dæmis fólk sem hefur einangrast í sóttkví og maður er dálítið hræddur um að það fólk gleymist dálítið í umræðunni um Covid, þetta er gríðarstór hópur líka sem er eitt heima hjá sér og hefur kannski engan til að ræða við,“ segir Sigurveig og bætir því við að stór hluti vinnudags íslenskra heimilislækna fari í að vinna í andlegum málum, ekki síður en líkamlegum.

Sigurveig Margrét ásamt sambýlismanni sínum Ágústi Bjarka Magnússyni véltæknifræðingi.
Sigurveig Margrét ásamt sambýlismanni sínum Ágústi Bjarka Magnússyni véltæknifræðingi. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum stundum fyrsti viðkomustaður og við erum kannski þröskuldurinn yfir í sálfræðinga og geðlækna sem eru næsta stig. Allar heilsugæslur búa yfir úrræðum til að leiðbeina eða útvega fólki sálfræðinga en við þurfum líka að meta hvað þurfi til,“ segir Sigurveig.

Gleymdum okkur

Líða tekur að lokum spjallsins, hvaða skilaboð vill heimilislæknirinn færa íslenskri þjóð í miðjum faraldri?

„Við verðum að hægja á okkur og passa okkur núna. Ég upplifði það í fyrsta sinn í dag að fara í búð og allir voru með grímur og héldu fjarlægð. Þessi bylgja hefði ekki farið af stað nema við hefðum gleymt okkur og ekki farið varlega. Við vorum að fara í veiðiferðir og skemmtiferðir og ég segi þetta ekki bara vegna álags á heilbrigðiskerfið heldur líka vegna þess að fólk er að veikjast af öðrum sjúkdómum en Covid, við erum aftur komin með bíl núna sem er í vitjunum frá hádegi til miðnættis, læknavakt með heimilislækni. Fólk í sóttkví dettur heima hjá sér og fær sýkingar og allt mögulegt, það er svo margt annað í gangi og ég segi bara hlustið á Ölmu og Víði og Þórólf því þessi faraldur er dauðans alvara. Við viljum aldrei þurfa að lenda í því að velja á milli veikra einstaklinga og við viljum ekki þurfa að setja á útgöngubann eins og til dæmis á Spáni,“ eru lokaorð Sigurveigar Margrétar Stefánsdóttur heimilislæknis í spjalli við mbl.is í kvöld.

mbl.is