Sýnir þörf á úrbótum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að bruni sem upp kom í húsbíl í Grafningi í Árnessýslu á föstudagskvöld, þar sem einn lést, sýni mikilvægi þess að úrbætur séu gerðar á neyðarsímsvörun hér á landi. Hún segist hafa óskað eftir því fyrir nokkrum mánuðum að neyðarsímsvörunarkerfi Neyðarlínunnar yrði samræmdara. Í gær skapaðist tilefni til að kanna hversu langt sú vinna væri komin svo að hægt verði að koma í veg fyrir að atvik líkt og í Grafningi endurtaki sig. Prufukeyrsla á nýju kerfi hefst í lok vikunnar að sögn Áslaugar.

Á föstudagskvöld barst Neyðarlínunni tilkynning um að eldur hefði komið upp í húsbíl og mat Neyðarlínan það svo að gera þyrfti lögreglunni á Suðurlandi viðvart. Símtal þess sem tilkynnti Neyðarlínu um eldsvoðann var því fært til lögreglunnar á Suðurlandi en þar hringdi út eftir að sá sem tilkynnti málið hafði beðið í tæpa mínútu á línunni. Áslaug Arna segir að koma megi í veg fyrir að svona gerist með því að samræma neyðarsímsvörun, svo að ekki þurfi að tilkynna vá á borð við eldsvoða til tveggja mismunandi aðila.

„Fyrir nokkru fór ég fram á að neyðarsímsvörunarkerfi Neyðarlínunnar yrði samræmt með þeim hætti að ekki þyrfti að tilkynna sama málið til tveggja mismunandi aðila. Það sem gerðist núna á föstudag styður mikilvægi þessara breytinga sem eru að koma til framkvæmda,“ segir Áslaug í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert