90% lífeyrisþega fengu rangar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins

Ríkisendurskoðun gerir margvíslegar athugasemdir við verklag TR og segir brýnt …
Ríkisendurskoðun gerir margvíslegar athugasemdir við verklag TR og segir brýnt að 15 ára endurskoðun almannatryggingalaga ljúki sem fyrst.

Ríkisendurskoðun segir í nýrri stjórnsýsluúttekt, að bæta þurfi málsmeðferð hjá Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Sérstaklega er fundið að því að of fáir viðskiptavina TR fái réttar greiðslur. Bent er á að á tímabilinu 2016-19 hafi endurreikningur bóta leitt í ljós að mikill meirihluti lífeyrisþega fékk ýmist of eða vangreiddar greiðslur vegna mismunar á tekjuáætlun og rauntekjum. Á þessu tímabili fengu 87-90,6% lífeyrisþega rangar greiðslur. Þá er sagt nauðsynlegt að minnka umfang endurreiknings bóta og endurskoða þá fjárhæð, sem ekki skal innheimta komi til ofgreiðslna, en sú fjárhæð er í dag aðeins 1.000 kr.

Í stjórnsýsluúttekinni segir einnig að stofnunin þurfi sinna leiðbeiningarskyldu sinni betur og efla upplýsingagjöf. Endurskoða þurfi núgildandi fyrirkomulag um að rekin séu umboð fyrir TR hjá sýslumannsembættum landsins. Sömuleiðis telur Ríkisendurskoðun brýnt að heildarendurskoðun laga um almannatryggingar ljúki sem fyrst, en hún hefur nú staðið yfir í 15 ár og lagaumgjörðin orðin flókin og ógagnsæ.

Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.

Brotalamir í starfsemi TR

Þar segir að ýmsar brotalamir megi finna í starfsemi TR. Umboðsmaður Alþingis hafi þannig bent á að rannsóknarskylda hafi ekki alltaf verið uppfyllt og að stofnunin hafi ekki aflað allra nauðsynlegra gagna við afgreiðslu tiltekinna mála.  Dæmi séu um að viðskiptavinir hafi orðið af réttindum sínum, um lengri eða skemmri tíma, vegna þessa.

Þá er bent á að það sé vísbending um að vinnubrögðum sé áfátt hve margir úrskurðir falli gegn verklagi TR. Á tímabilinu 2017-2019 hafii hlutfall úrskurða, sem staðfestu verklag Tryggingastofnunar eða vísa máli frá, að vísu hækkað úr 61-70% á tímabilinu 2017-19, en þrátt fyrir að staðfestingarhlutfallið hafi hækkað nokkuð, telur Ríkisendurskoðun að Tryggingastofnun verði að bæta verklagið enn frekar.

Endurskoðun laga

Talsvert er fjallað um heildarumhverfi stofnunarinnar. Almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið heyri nú undir tvö ráðuneyti, en heildstæð stefna, sem taki á hlutverki þeirra og verkaskiptingu, liggi ekki fyrir. Mikilvægt sé að bæta úr því og huga að samspili þessara tveggja kerfa.

Brýn þörf er sögð á að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, en hún hafi staðið yfir frá árinu 2005. Breytingar á almannatryggingalöggjöfinni hafi verið tíðar og því er mikið um viðbætur og innri tilvísanir í henni. Fyrir vikið séu lögin orðin flókin og ógagnsæ, sem auðveldi ekki framkvæmd þeirra. Dæmi eru sögð um að mikilvæg ákvæði laganna séu opin til túlkunar, sem tekið hafi breytingum í meðferð Tryggingastofnunar án þess að nokkuð í lagaumhverfinu hafi breyst.

Ríkisendurskoðun vekur athygli á að mistök við lagasetningu og óskýr lagaákvæði hafii kallað á leiðréttingar, sem kosta muni ríkissjóð a.m.k. 9 milljarða króna í óvænt útgjöld á tímabilinu 2019-21. Skýr löggjöf dragi úr hættu á mistökum við útreikning og afgreiðslu lífeyrisréttinda og bóta. Því sé til mikils að vinna — bæði fyrir ríkissjóð og lífeyrisþega — að heildarendurskoðun laganna ljúki sem fyrst.

Sérlög fyrir öryrkja og önnur fyrir aldraða

Bent er á að töluverðar lagabreytingar hafi verið gerðar á þeim hluta laganna, sem snúi að eldri borgurum, sem hafi skilað sér í aukinni sátt um málefni aldraðra. Á hinn bóginn hafi ekki tekist að ná sams konar sátt í málefnum öryrkja, sem fyrir vikið séu mun óánægðari með störf Tryggingastofnunar. Þar sé um eðlisólíka hópa að ræða með mismunandi hagsmuni, svo til greina að skipta lögunum upp, þannig að sérstök lög gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja og fólks með skerta færni.

Ríkisendurskoðandi telur að innri rekstur stofnunarinnar sé almennt í góðu lagi og Tryggingastofnun jafnan verið rekin innan fjárveitinga síðastliðin ár. Þó er fundið að því að hún hafi fengið varanlegar viðbætur við fjárheimildir sínar til að sinna tilteknum verkefnum, en hafi, með vitund félagsmálaráðuneytis, nýtt fjárveitingarnar til ýmissa annarra þarfa. Athugunarvert sé að fjárveitingar skuli ekki nýttar með þeim hætti sem löggjafinn ætlaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert