Víðir viðurkennir mistök

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist hafa gert mistök varðandi undanþágur sem voru veittar þjálfurum karlalandsliðsins í fótbolta á leik liðsins gegn Belgíu í gær. Þjálfararnir voru í sóttkví en fengu að fylgjast með leiknum í gegnum gler á efri hæðum leikvangsins.

Víðir sagði á upplýsingafundi að sóttvarnarlæknir hafi bent honum á að þjálfararnir hefðu ekki átt að fá þessa heimild, eftir að starfsmaður KSÍ greindist með veiruna. Víðir sagðist hafa sett afskaplega slæmt fordæmi og að hann taki alla ábyrgð á þessu. Sagði hann þetta sérstaklega slæmt fyrir hann miðað við fyrri störf hans fyrir Knattspyrnusamband Íslands.

Víðir á upplýsingafundinum í dag.
Víðir á upplýsingafundinum í dag. Ljósmynd/Almannavarnir

Víðir sagði það jafnframt vonbrigði að brotið hafi verið gegn vinnusóttkví þegar starfsfólk KSÍ fór inn á völlinn að loknum sigri Íslendinga á Rúmeníu. Spurður út í sektir sagði hann almannavarnir ekki hafa skoðað hvers eðlis brotið er, hvort þetta hafi verið brot gegn reglum UEFA, brot á undanþágu frá almannavörnum, eða þá brot á sóttvarnareglum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í málið og sagði hann alla gera mistök. Mikilvægast sé að læra af þeim en ekki með dvelja við þau, heldur horfa fram á veginn.

mbl.is