Ekki gripið upp af götunni

Fuglar sem sjást mikið í Grindavík og einstaka flækingar eru …
Fuglar sem sjást mikið í Grindavík og einstaka flækingar eru í stofunni hjá Birgi og geymslum. Hann þarf nú að taka safnið aftur heim. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er með fuglana í geymlu. Ætli ég verði ekki að taka þá aftur heim,“ segir Birgir Pétursson, bílstjóri og fyrrverandi sjómaður í Grindavík. Grindavíkurbær hefur hafnað boði hans um að kaupa safn af uppstoppuðum fuglum.

Birgir hefur safnað fuglum í 40 ár og segir að það hafi orðið að áráttu hjá sér. „Ég kom mér í samband við menn til að fá fugla og skaut eitthvað sjálfur. Svo komst ég um árið í kynni við Sigurgeir Stefánsson fuglasafnara í Mývatnssveit, heimsótti hann og skoðaði safnið. Það var áður en byggt var yfir fuglasafn hans. Hann lét mig fá svolítið af fuglum sem höfðu komið í net í Mývatni. Svo frétti ég líka stundum af fuglum í frystikistunni hjá mönnum. Þetta er heilmikið vesen, maður grípur ekki svona lagað upp af götunni,“ segir Birgir.

Hann hefur lagt í kostnað við að kaupa fugla og láta stoppa þá upp. Hann reiknar með að þeir séu hátt í 90 í heildina.

Fugl úr Indlandshafi

„Það eru aldrei of margir fuglar. Ég var með þá inni í stofu hjá mér. Svo fór ég í minni íbúð og hafði ekkert með þetta að gera,“ segir Birgir.

Hann telur að merkilegasti fuglinn í safninu sé brúnþerna, fugl sem lifir í Suður-Indlandshafi. „Þeir trúa því ekki allir að hann hafi verið veiddur á Íslandi en ég þekki bara engan á Indlandi. Fuglinn var veiddur í Suðurey í Vestmannaeyjum og veiðimennirnir héldu að þetta væri skrofa. Það var ekki fyrr en uppstopparinn minn fann út að þetta væri þessi fágæti fugl, brúnþerna, að þeir föttuðu það úti í Eyjum að þeir höfðu gert mistök með því að láta mig fá fuglinn.“

Birgir Pétursson.
Birgir Pétursson. Ljósmynd/Aðsend

Birgir bauð Grindavíkurbæ að kaupa fuglasafnið. Frístunda- og menningarnefnd bæjarins taldi ekki réttlætanlegt að fjárfesta í safninu í ljósi stöðunnar í samfélaginu og bæjarráð staðfesti þá ákvörðun.

Gæti nýst í Kvikunni

Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, segir að safnið sé áhugavert, bærinn sé ekkert að draga úr því. Þar séu fuglar af svæðinu en einnig einhverjir flækingar. Hins vegar hafi ráðið ekki séð sér fært að fjárfesta í safninu vegna þess hvernig árar í rekstri sveitarfélaga nú um stundir. Ekki hafi verið komið fast verð á safnið en hugmyndir um að það myndi kosta um átta milljónir króna.

Eggert segir að hluti af safninu hefði passað inn í Kvikuna, menningarhús Grindavíkur, og nýst í sýningu um lífið í sjávarþorpinu og saltfiskvinnslu á 20. öldinni. Aðrir hlutar hefðu getað farið í skólann eða á bókasafnið og haft ákveðið fræðslugildi.

Það kennir margra grasa í fuglasafni Birgis Péturssonar.
Það kennir margra grasa í fuglasafni Birgis Péturssonar. Ljósmynd/Aðsend

Enduruppgötva Kvikuna

Vel hefur gengið að reka menningarhúsið Kvikuna í Grindavík þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og jarðskjálfta. Fáir ferðamenn komu í safnið í sumar af þessum ástæðum. Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs bæjarins, segir að á móti hafi Grindvíkingar enduruppgötvað menningarhúsið sitt.

Allt síðasta ár komu 3.000 gestir í Kvikuna en frá 1. febrúar til 1. ágúst í ár komu 3.200 gestir. Spurður um skýringar segir Eggert að unnið hafi verið markvisst að viðburðum sem sniðnir eru að samfélaginu í Grindavík, meðal annars um jarðhræringar, og einnig haldin námskeið og smiðjur. Íbúar séu duglegir að koma með hugmyndir og miðli þar þekkingu sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert