Áfram lokað í Hreyfingu

Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri Hreyfingar. mbl.is/Árni Sæberg

Líkamsræktarstöðin Hreyfing hefur ákveðið að opna ekki þrátt fyrir heimild í reglugerð  heilbrigðisráðherra um slíkt. Sóttvarnalæknir hefur lagst gegn opnun líkamsræktarstöðva og sagt að fjölda smita megi rekja til þeirra.

„Að vandlega athuguðu máli höfum við hjá Hreyfingu tekið ákvörðun um að nýta okkur ekki glufu í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins til að opna fyrir hóptíma með miklum takmörkunum,“ segir í tilkynningu á vef líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar.

Víða hafa líkamsræktarstöðvar í dag ákveðið að opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum sem kjósa að mæta í lokaða tíma þar sem 20 manns þjálfa saman. Þeim er heimilt að gera það með vissum takmörkunum samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í dag.

„Við lítum svo á að samfélagsleg ábyrgð og samstaða sé mikilvæg og munum því fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum. Enn eru of mörg smit í samfélaginu og ljóst að staðan er viðkvæm,“ segir í tilkynningunni.

Hópsmit innan Hreyfingar hafi ekki komið upp

Eins og áður hefur komið fram mælti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir með því að líkamsræktarstöðvum á landsvísu yrðu áfram lokaðar vegna útbreiðslu kórónuveirusmita.

„Við munum bíða eftir því að fá fullt leyfi til að opna starfsemina á ný, þrátt fyrir að sóttvarnir séu til fyrirmyndar hjá okkur og engin hópsmit hafi komið upp í Hreyfingu.

Við vonum vissulega að við getum opnað sem fyrst en þangað til munum við bjóða meðlimum okkar áfram upp á fjölbreytta tíma á Hreyfing heima og heimaæfingakerfi á Mínum síðum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is