Smitið hafi ekki borist inn í samfélagið

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundinum í morgun.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundinum í morgun. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur mestar áhyggjur af því núna hvort smitið sem kom upp á Landakoti hafi borist inn í samfélagið og hvort aukning fari í framhaldinu að sjást á samfélagslegum smitum.

Sagðist hann vona að það hafi ekki gerst. Smitrakning væri í fullum gangi. 

Á upplýsingafundi sagði hann að samfélagsleg smit hafi verið í kringum 30 manns á dag undanfarið. Um 70% þeirra sem hafa verið að greinast hafa verið í sóttkví en í gær fór talan niður í 44%.

Í þessari bylgju veirunnar hafa rúmlega 2.300 einstaklingar smitast af veirunni frá 15. september. Rúmlega 1.000 manns eru í einangrun.

„Verkefni okkar núna er að fást við afleiðingar af þessari hópsýkingu á Landakoti,“ sagði Þórólfur og lagði sérstaka áherslu á að fólk hugi að sjúkdómavörnum á hjúkrunarheimilum. Einnig biðlaði hann til atvinnurekenda og vinnustaða að brýna fyrir starfsfólki að mæta ekki veikt til vinnu. Það ættu að vera dagleg skilaboð.

Hann sagði óljóst hversu lengi við þurfum að hafa þær takmarkanir sem núna eru í gangi í samfélaginu vegna veirunnar en þær gilda til þriðja nóvember. Á næstu dögum lætur hann heilbrigðisráðherra hafa tillögur um hvað tekur við. „Það er óhætt að segja að tölur næstu daga munu skera úr um hvaða tillögur ég mun koma með.“

Hann hvatti alla til að fara eftir leiðbeiningum og sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum og þakkaði fólki fyrir að standa sig vel og fylgja fyrirmælum.

„Ég vil minna á að við eigum langt í land með þennan faraldur,“ bætti hann við og hvatti fólk til að standa saman.

mbl.is