Rann blóðið til skyldunnar og hjálpuðu Landakoti

Pétur segist vonast til að starfsemin færist í eðlilegt horf …
Pétur segist vonast til að starfsemin færist í eðlilegt horf í næstu viku.

Þrjátíu starfsmenn Reykjalundar og ellefu sjúklingar, sem nú eru í sóttkví, munu undirgangast seinni skimun fyrir kórónuveirusmiti undir lok vikunnar. Fimm starfsmenn og fimm sjúklingar greindust smitaðir af veirunni um helgina. Af þeim komu þrír sjúklingar frá Landakoti í síðustu viku.

Þeir hafa auk hinna tveggja verið fluttir aftur á Landspítala, á covid-deildina.

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, segist í samtali við mbl.is vonast til þess að starfsemi endurhæfingarmiðstöðvarinnar verði komin í eðlilegt horf í næstu viku.

Hann segir smitin hafa komið upp á deildinni Miðgarði, sem hýsti sextán sjúklinga. Þeir ellefu sem ekki greindust smitaðir eru þar enn, í sóttkví, og bíða seinni skimunar eins og áður sagði.

Starfsfólkið fært til starfa á Miðgarði

„Flestir þeir sem njóta þjónustu Reykjalundar eru á svokölluðum dag- og göngudeildum, það er að segja að fólk kemur, er yfir daginn og fer svo heim á kvöldin. Öll sú starfsemi liggur niðri þessa viku, þannig að þetta ástand hefur áhrif á vel á annað hundrað einstaklinga sem þurfa endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi,“ segir Pétur.

„Ástæðan er sú að allir starfsmenn á deildinni Miðgarði, þar sem sýkingin kom upp, eru í sóttkví og við erum að nota aðra starfsmenn Reykjalundar til að vinna á deildinni. Þetta er allt í sóttvarnahólfum hjá okkur, þannig að þegar starfsmenn fara úr sínu sóttvarnahólfi til að vinna í Miðgarðssóttvarnahólfinu, þá fara þeir ekki til baka í sín gömlu sóttvarnahólf fyrr en eftir einhverja daga og svo sýnatöku.“

Beygur í mörgum

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.
Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar. Ljósmynd/Aðsend

Þar af leiðandi séu fáir eftir til að sinna sinni hefðbundnu vinnu. Ekki sé hægt að bjóða sjúklingum í endurhæfingu upp á að koma og finna fyrir því að stór hluti endurhæfingarmeðferðar sé ekki í gangi, þar sem starfsfólkið vanti.

„Við töldum því þetta farsælast fyrir alla, að gera hlé á starfseminni. Auk þess er beygur í mörgum skjólstæðingum okkar, út af þessu öllu, yfir því að koma á Reykjalund. Og maður sýnir því fullan skilning. En ef allt gengur upp ætti vonandi sem mest af starfsemi Reykjalundar að vera komin í eðlilegt horf eftir helgi.“

Ekki hefðbundin starfsemi Reykjalundar

„Það sem gerðist núna í þessari þriðju bylgju er að til okkar var leitað af heilbrigðisyfirvöldum um að við myndum taka inn á þessa deild tíu sjúklinga frá Landspítala, sem eru með svokallað færni- og heilsumat,“ segir Pétur og bendir á að Reykjalundur sé endurhæfingarstofnun og sérhæfi sig í endurhæfingu fólks.

Í raun felist það því ekki í hefðbundinni starfsemi Reykjalundar að sinna slíkum sjúklingum.

„En okkur rann blóðið til skyldunnar að aðstoða í þessu erfiða ástandi sem var fram undan, eða sem gæti hugsanlega komið upp. Við sömdum um það og það var í raun nýbyrjað þegar þessi sýking kemur upp, en þá höfðum við meðal annars tekið sjúklinga frá Landakoti inn á þessa deild.

Við höfum kannski ekki mikla þekkingu eða reynslu í umönnun þessara sjúklinga sem eru með færni- og heilsumat. En við vorum tilbúin að koma að þessu framlagi til samfélagsins í ástandinu sem nú ríkir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert