„Sýnir svart á hvítu fáránleika gildandi regluverks“

Dagbjartur Árelíusson starfrækir brugghúsið Steðja.
Dagbjartur Árelíusson starfrækir brugghúsið Steðja. Ljósmynd/Aðsend

Engin rannsókn hefði verið gerð á vefverslun brugghússins Steðja, ef brugghúsið væri erlent. Lögreglurannsókn vegna netverslunarinnar sýnir „svart á hvítu fáránleika gildandi regluverks á áfengismarkaði“. Þetta kemur fram í tilkynningu Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa. 

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að lögreglan á Vesturlandi rannsaki nú farandsölu á bjór sem eigandi brugghússins Steðja á samnefndum bæ í Flókadal í Borgarfirði stendur fyrir. 

Fyrirtækið opnaði nýlega netverslun þar sem panta má alls átta gerðir af bjór, þar með talið tvær tegundir af jólabjór sem viðskiptavinir fá sendan heim. 

„Ef um erlendan áfengisframleiðanda væri að ræða þá væri engin rannsókn, enda mega útlensk fyrirtæki selja Íslendingum áfengi í netverslun án takmarkana,“ segir Sigurður P. Snorrason, formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa. „Sama háttsemi lítils frumkvöðlafyrirtækis í Borgarfirði er hins vegar lögreglumál.“ 

„Lyftistöng fyrir samfélagið“

Á þriðja tug lítilla frumkvöðlafyrirtækja eru í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa og tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð að sögn Sigurðar. Hann bendir á að brugghúsin séu um allt land, mörg hver í brothættum byggðum og þau séu gjarnan mikil lyftistöng fyrir samfélagið. 

„Heimsóknir erlendra ferðamanna voru stór hluti af tekjum flestra brugghúsanna, svo það er verulega þungur vetur framundan hjá okkar fólki,“ segir Sigurður. Hann bendir á að aðgengi handverksbrugghúsa að hilluplássi ríkisverslana sé afar takmarkað. Þá megi þau samkvæmt gildandi lögum hvorki selja vörur sínar óopnaðar á framleiðslustað né í netverslun, líkt og erlend fyrirtæki.

„Við erum þegar farin að sjá uppsagnir hjá okkar fólki og því miður fyrirséð að talsverður fjöldi starfa tapist að óbreyttu víða um landið,“ segir Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina