Á gjörgæslu eftir árásina í Borgarnesi

Borgarnes í Borgarbyggð.
Borgarnes í Borgarbyggð. mbl.is/Sigurður Bogi

Karlmaður á sextugsaldri sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás í Borgarnesi fyrr í mánuðinum liggur á gjörgæslu. Lögreglan á Vesturlandi hefur ekki ákveðið hvort hún fer fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum sem er grunaður um árásina, en það rennur út á morgun.

Að sögn Jónasar Ottóssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Vesturlandi, fer það svolítið eftir ástandi þolandans hver niðurstaðan verður varðandi gæsluvarðhaldið. Ástand hans hefur verið óstöðugt og hefur hann verið fluttur nokkuð á milli deilda. Sem stendur er hann á gjörgæslu.

Héraðsdómur Vesturlands úrskurðaði í síðustu viku að maður á fimmtugsaldri sem er grunaður um árásina skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 2. nóvember og vera í einangrun. Úrskurðinum var áfrýjað til Landsréttar sem ákvað að stytta varðhaldið til 29. október.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Sagði árásina tilefnislausa 

Í niðurstöðu Landsréttar er greint frá tildrögum árásarinnar. Fram kemur að kærði sé grunaður um meiri háttar líkamsárás. Lögreglan kom á vettvang um tveimur mínútum eftir að tilkynning barst. Brotaþoli var fyrir utan húsið mjög blóðugur í andliti og hélt utan um brjóstkassann á sér. Hann sagðist hafa verið í heimsókn hjá meinta árásarmanninum og ætlað að gista hjá honum um nóttina. Þeir hafi drukkið áfengi og verið orðnir töluvert ölvaðir þegar kærði hafi ráðist á hann skyndilega og af tilefnislausu þar sem hann hafi setið á rúmi í íbúðinni.

„Hefði kærði kýlt hann með krepptum hnefum í andlit og líkama og bitið hann í andlit og vinstra eyrað. Hafi brotaþoli sagst hafa haldið að kærði myndi drepa hann og því hefði hann kýlt frá sér. Við það hefði kærði rotast og hann þá komið sér út úr húsinu,“ segir í greinargerð lögreglustjóra sem birtist með úrskurði héraðsdóms 22. október.

Í lífshættu 

Þegar brotaþolinn var fluttur á heilsugæslu kom í ljós að hann var líklega rifbeinsbrotinn og mögulega viðbeinsbrotinn og kjálkabrotinn. Nokkur bitför voru í andliti og á eyra hans, vinstra eyra hans var mjög bólgið og mikil bólga í höfði á bak við eyrað. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akranesi og síðan áfram á Landspítalann í Fossvogi. Þar kom í ljós að annað lunga hans var samfallið. Ástand hans versnaði 21. október þannig að leggja þurfti hann inn á gjörgæslu. Ástand hans var alvarlegt og lífshættulegt.

Blóð víða um gólf 

Í greinargerðinni kemur einnig fram að þegar lögreglan kom á aðra hæð hússins þar sem árásin átti sér stað hafi verið dropaslóð inn eftir ganginum. Þegar lögreglan fór inn í íbúðina lá kærði á gólfinu með blóð á höndum og í andliti. Blóð, blóðslettur og blóðkám voru víða um gólf og á veggjum. Einnig var mikið af blóðblettum á rúmfötum í rúminu sem talið er að brotaþoli hafi setið á þegar árásin átti sér stað.

mbl.is/Eggert

Sagðist ekki muna neitt

Kærði sagðist hafa verið mjög ölvaður og gat hann ekkert sagt til um hvað gerðist. Hann kvartaði yfir höfuðverk og sagðist ekki geta staðið upp. Hann var með glóðarauga á báðum augum. Eftir útskrift af sjúkrahúsi var hann handtekinn 21. október.

„Það sé mat lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um meiri háttar líkamsárás,“ segir í greinargerðinni. Viðurlög við því geta verið allt að sextán ára fangelsi.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist maðurinn hafa neytt áfengis og sterkra verkjalyfja umrætt kvöld. Hann sagðist ekki muna eftir því að hafa kýlt eða bitið brotaþola og ekki heldur að lögreglumenn hafi komið í íbúð hans, Hann sagðist vera með brákaðan kjálka, lausar tennur, eymsli í nefi, brákað rifbein, mar víða og eymsli eftir högg í höfuð.

Lögreglan telur framburð mannsins ekki fullnægjandi sem skýringu á því sem gerðist og á skjön við það sem fram hefur komið við rannsókn málsins, sérstaklega varðandi áverka brotaþola.

Jónas lögreglufulltrúi segir í samtali við mbl.is að ekki hafi enn verið tekin skýrsla af kærða, nema örstutt. Einnig þurfi að taka skýrslu af brotaþola en það hafi ekki náðst vegna ástands hans. Einungis hafi bráðabirgðaskýrslur verið teknar af mönnunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert