Fólk veigri sér ekki við að hafa samband

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur áhyggjur af því að fólk haldi aftur af sér og leiti ekki til heilsugæslunnar vegna kórónuveirunnar. „Það er okkar upplifun þótt við höfum ekki nákvæmar tölur um það en svipuð staða hefur komið upp erlendis,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.

Vísar hann meðal annars í tölur frá Krabbameinsfélaginu sem sýna 14-18% fækkun krabbameinsgreininga í vor miðað við sama tímabil í fyrra. „Þegar við erum með færri viðtöl þá fækkar greiningum krabbameina.“

Hann hvetur fólk til að veigra sér ekki við að hafa samband við heilsugæsluna í gegnum síma. „Fólk á að hafa samband og við metum það hvort það þurfi að mæta beint í rannsókn eða fara í viðtal.“

Meiri áhersla á símaviðtöl

Ákveðið hefur verið að enn meiri áhersla verði lögð á símaviðtöl og rafræn samskipti við skjólstæðinga heilsugæslunnar á næstunni. Óskar segir að í vor hafi verulegur hluti samskipta heilsugæslunnar við skjólstæðinga farið fram gegnum síma en síðustu mánuði hafi heimsóknum fjölgað. Nú verði snúið af þeirri braut tímabundið.

Álag á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins hefur verið töluvert yfir meðallagi það sem af er ári, og er aukningin upp undir 20% á sumum stöðvum. Skýrist það meðal annars af mikilli fjölgun símatíma hjúkrunarfræðinga og geðheilsuteymisins, sem hefur verið eflt. Heimsóknum hefur hins vegar fækkað og eru þær aðeins um 70% af því sem var í fyrra, sé litið til fyrstu níu mánaða ársins.

mbl.is