Smit í samkvæmi og jarðarför

Af þeim 14 sem greindust með smit á Norðurlandi eystra …
Af þeim 14 sem greindust með smit á Norðurlandi eystra í gær voru 12 í sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er ekki góð,“ segir Hermann Karlsson, hjá aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra. 14 ný smit voru greind þar í gær þannig að þau eru alls 24 á tveimur dögum. Flest þeirra tengjast tveimur atburðum, samkvæmi og jarðarför.

Ný smit á Norðurlandi eystra eru ekki inni í tölum á covid.is í dag fyrir Norðurland eystra þar sem ekki var hægt að fljúga með sýnin suður í gærkvöldi vegna veðurs og því ekið með þau suður.

64 virk smit á Norðurlandi eystra

Hermann fékk niðurstöðurnar skömmu fyrir hádegi. Alls eru virk smit á Norðurlandi eystra nú 64 talsins og 230 eru í sóttkví.

Hermann segir að sú tala, það er fjöldi fólks í sóttkví, muni hækka í dag enda standi smitrakning yfir vegna þessara 14 nýju smita.

Nýju smitin eru flest á Akureyri og Dalvík og tengjast þau, það eru samtvinnuð og tengjast flest tveimur viðburðum, samkvæmi í heimahúsi annars vegar og jarðarför hins vegar. „Það góða er að 12 af 14 voru þegar í sóttkví,“ segir Hermann í samtali við mbl.is.

Að sögn Hermanns er staðan ágæt á Sjúkrahúsinu á Akureyri en forsvarsmenn sjúkrahússins og aðgerðastjórnin eru í daglegum samskiptum vegna Covid-19. Í farsóttahúsinu í Hafnarstræti (Skjaldborg) eru fimm í einangrun og tveir í sóttkví.

„Fyllsta ástæða er til að biðja fólk að fara varlega og virða fjarlægðarmörk og annað sem tiltekið er í sóttvarnareglum. Þar sem fólk er að hittast þá grasserar þetta á milli fólks,“ segir Hermann.

Hann segir að í einhverjum tilvikum hafi reynst erfitt að fá suma þeirra sem hafa reynst smitaðir og eiga að vera í einangrun til að virða reglurnar. Hið sama á við um ákveðna einstaklinga sem eiga að vera í sóttkví.

„Staðan í því er ágæt núna og ákveðið jafnvægi náðst. Það hafa komið dagar þar sem við höfum verið í ákveðnum eltingaleik við þá sem eiga annaðhvort að vera í einangrun eða sóttkví. Það er alveg ljóst að þetta er fólk sem fer ekki eftir þessum hefðbundnu daglegu reglum og fer ekki að taka upp á því núna. Í augnablikinu erum við á ágætum stað með þann hóp,“ segir Hermann Karlsson.

Hvetja til einbeittrar samstöðu

Lögreglan á Norðurlandi eystra og aðgerðastjórn almannavarna í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hvetja íbúa svæðisins til einbeittrar samstöðu í baráttu við kórónuveiruna.

„Smitum á svæðinu hefur fjölgað undanfarna daga og því nauðsynlegt að hvert og eitt okkar geri það sem hægt er til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar.

Allir kunna viðbrögðin, allir geta gert sitt og nú þurfum við öll að standa saman. Persónubundnar sóttvarnir verða að vera í lagi ef árangur á að nást. Reglulegur handþvottur, sprittun, grímunotkun þar sem hún á við og virðing fyrir nálægðarmörkum við annað fólk er lífsnauðsynleg í baráttunni við þennan vágest sem veiran er.

Stöndum okkur öll sem eitt í að virða sóttvarnarreglur og tökum fullt tillit til þeirra tilmæla sem gefin eru út af sóttvarnarlækni. Forðumst öll ferðalög og mannamót eins og frekast er unnt. Gerum þetta saman, gerum þetta vel og sýnum samstöðu, okkar allra vegna,“ segir á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

mbl.is

Bloggað um fréttina