„Fals-Fréttablaðið“ sagt færa falskar smitfréttir

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Bandaríska sendiráðið sakar Fréttablaðið um falsfréttaflutning í færslu sem sendiráðið birti á Facebook í nótt. Þar er átt við fréttir sem Fréttablaðið flutti í gær um að starfsmaður sendiráðsins hefði greinst smitaður af Covid-19 í síðustu viku. Þrátt fyrir það hefðu allir starfsmenn verið kallaðir til vinnu á sunnudag til að aðstoða við flutning sendiráðsins í nýtt húsnæði við Engjateig. 

Fréttablaðið hafði þetta eftir heimildum sínum en sendiráðið vísar efni fréttarinnar á bug og spyr: „Hafa falsfréttir borist til Íslands?“

Í færslunni segir að sendiráðið hafi verið vígt án Covid-19-smits. „Skömmin er núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausa blaðamennsku. Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla,“ segir í færslunni. 

Þar er Fréttablaðið sakað um að vera „ófagmannlegt“ og sýna „virðingarleysi“ með því að nota Covid-19 í pólitískum tilgangi. 

Bandaríska sendiráðið hefur alltaf verið og er öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík,“ segir jafnframt í færslunni. 

Í færslunni er ekki tekið fram hvenær sendiráðið hafi verið vígt eða hvort flutningum sé lokið. Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna, tísti þó í gær og sagði flutninga standa yfir. 

Fréttablaðið virðist þó ekki kippa sér mikið upp við ásakanirnar og birti þær á forsíðu vefjarins frettabladid.is nú í morgun. 

mbl.is