Mönnun leyfði ekki hólfaskiptingu

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

„Við erum að skoða mjög vandlega hvers vegna hópsmitið kom upp,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is. Aðilar af sýkingavarnadeild spítalans sem ekki komu að viðbragðinu fara yfir hvernig kórónuveirusmit komst inn á Landakotsspítala en að minnsta kosti 132 hafa smitast út frá því.

Páll segir að málið sé ekki rannsakað til að leita sökudólga. Ætlunin sé að læra af þessu til að hægt sé að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig.

Vinnan er býsna flókin en hún fellst í því að rekja ferla og ræða nokkuð ítarlega við yfir 100 manns,“ segir Páll. Vinnu er ekki lokið en ræða þarf væntanlega niðurstöðu við embætti landlæknis og aðra eftirlitsaðila.

„Ég geri ráð fyrir því að þetta liggi fyrir í upphafi þar næstu viku og þá mun spítalinn upplýsa um niðurstöður skoðunarinnar,“ segir Páll. Hann tiltekur þó þrjú atriði sem þegar sé ljóst að hafi komið saman og verði þess valdandi að smitið dreifðist svo víða:

Um mjög smitandi afbrigði kórónuveirunnar virðist hafa verið að ræða. Húsnæðið á Landakoti er óhentugt; fólk á fjölbýlum, margir sjúklingar um hvert klósett og þröng starfsmannaaðstaða, auk skorts á loftræstingu.

„Í þriðja lagi er það sú áskorun sem mönnun er,“ segir Páll og heldur áfram: 

„Því var haldið fram í vikunni að það hefðu orðið mistök að hólfaskipta ekki á Landakoti. Það voru ekki mistök en þetta var vandlega skoðað. Þetta var ekki gert af því að mönnunin leyfði ekki hólfaskiptingu,“ segir Páll og bætir við að einfaldlega hafi ekki verið nógu margir starfsmenn til að hægt væri að hólfaskipta Landakoti. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forstjórinn segir stöðuna á spítalanum þunga en stöðuga og virðist sem það sé að takast að ná utan um hópsmitið á Landakoti. 

Smit tengd þeim klasa muni hins vegar halda áfram að koma fram næstu vikuna hið minnsta. Hins vegar finni hann fyrir vaxandi áskorun að útskrifa fólk sem er ekki covid-veikt.

„Það er verið að vinna í því en spítalinn er býsna fullur,“ segir Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina