Bar fögnuðurinn sóttvarnirnar ofurliði?

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir fögnuð Valsmanna í gærkvöld, sem hefur sætt gagnrýni, vonbrigði. Til skoðunar er hvort eitthvað verði aðhafst í málinu.

Karlalið Vals í knattspyrnu var krýnt Íslandsmeistari í gær eftir að útséð varð að ekki væri hægt að klára Íslandsmótið í knattspyrnu vegna kórónuveirufaraldursins. Eins og vera ber fögnuðu Valsmenn þessu vel og innilega, en mögulega kannski of vel og of innilega. Myndbönd af fagnaðarlátunum og hópmynd með 27 manns þykja ganga í berhögg við þágildandi sóttvarnareglur. 

„Fyrstu viðbrögð eru bara vonbrigði. Fyrirmyndarlið eins og Valur, virkilega leiðinlegt að sjá svona hjá þeim,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

Hann segir það vera til skoðunar hvort eitthvað verði aðhafst í málinu.

„Ég frétti bara af þessu núna í morgun og við höfum verið að skoða þessi myndbönd og svona. Ég get ekki sagt til um það núna hvort og hvað þá verði gert vegna þessa. Þetta er bara til skoðunar eins og ég segi.“ 

Miður ef menn passa sig ekki

Þórólfur Guðnason segir í samtali við mbl.is að honum þyki miður ef einhverjum finnist sóttvarnareglur gilda um aðra en ekki sjálfa sig. Hann veit sjálfur ekki hvort málið hafði verið skoðað og hafði ekki mikla vitneskju um málið þegar viðbragða var leitað.

„Án þess að ætla að fullyrða um Valsara þá þykir mér miður að sjá þegar menn halda kannski að eitt eigi við um aðra en ekki þá. Þetta eru auðvitað akkúrat þær aðstæður þar sem upp koma smit og ég hef áður sagt að það séu ekki boð og bönn yfirvalda sem ráði úrslitum, heldur hegðun almennings.“ 

Landamærin til skoðunar

Víðir var einnig spurður að því hvernig fyrirkomulagið muni koma til með að vera á landamærum Íslands. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði nýverið að minnisblað væri í smíðum þar sem breytt fyrirkomulag er lagt til á landamærum, hann gaf þó lítið upp um hvernig það fyrirkomulag yrði enda óákveðið enn. 

Hann sagði þó að borið hefði á því að fólk sem kysi að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins stæði ekki við orð sín og bryti sóttkví. Víðir gaf þó ekki mikið fyrir þetta.

„Þetta er ekki það mikill fjöldi fólks sem gerir þetta, þannig það er ekki sérstaklega mikið mál að halda utan um það.“

Hann segir þó að verið sé að undirbúa tölfræði um landamæraskimunina og fyrirkomulagið allt fyrir heilbrigðisráðuneytið.

„Síðustu tvo mánuði hafa 439 ákveðið að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins eða um 2,4% allra komufarþega. Það eru margs konar ástæður fyrir því að fólk velur þetta í stað þess að fara í skimun. Til dæmis hefur fólk verið að velta kostnaðarhlutanum fyrir sér og svo eru aðrir sem eru með veikindi eða annað slíkt og ekki hægt að taka sýni úr þeim vegna þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina