Fólk sem byggði landið fékk kótelettur heim

Björn Þór Kristjánsson og Sandra Kaubriene.
Björn Þór Kristjánsson og Sandra Kaubriene.

„Við Sandra konan mín höfum þá lífsskoðun að það sé hverjum manni hollt að gefa eitthvað af sér. Við erum svo heppin að guð gaf okkur tækifæri til að gera eitthvað fyrir aðra. Við ákváðum að gera eitthvað fyrir fullorðna fólkið á Blönduósi. Það er fólk sem búið er að vera lokað inni síðustu vikur og mánuði og lítil tilbreyting í lífi þess. Þetta er líka fólkið sem byggði upp landið sem við fáum að njóta núna,“ segir Björn Þór Kristjánsson, eigandi B&S Restaurant, sem sendi á sunnudag á annað hundrað íbúum yfir sjötugu á Blönduósi kótelettur í raspi með rabarbarasultu, grænum baunum, rauðkáli og smjörfeiti. 

Elsta fólkið einangrast mest 

Veitingastaðurinn hefur staðið að kótelettukvöldum í um þrjátíu skipti við miklar vinsældir íbúa, ekki síst þeirra eldri. Ekkert hefur þó verið um svona kvöld um hríð vegna veirufaraldursins. Engin smit hafa komið upp á Blönduósi en samkomutakmarkanir eru í gildi þar sem annars staðar. „Við hér finnum fyrir því að samskiptin eru minni og tengingin því minni við annað fólk. Elsta fólkið einangrast mest, er með undirliggjandi sjúkdóma og meira hrætt. Þess vegna er gaman að geta gefið eitthvað af sér til þessa hóps,“ segir Björn. 

Ekki hefur komið upp smit á Blönduósi.
Ekki hefur komið upp smit á Blönduósi. Jón Sigurðsson

Sérvaldar kótelettur

Að sögn hans er helsti hvatamaður kótelettukvöldanna „vítamínsprauta samfélagsins“, Valdimar Guðmarsson frá Bakkakoti. Hann stofnaði „Frjálsa kótelettukvöldið“ eins og það er nefnt. „Það hefur meira verið fullorðið fólk sem hefur sótt í þetta,“ segir Björn. Hann segir að því hafi þótt tilvalið að senda matinn til fólks á sunnudag. „Við sendum dreifibréf á þennan hóp fyrir nokkrum dögum til að láta vita. Af því sem maður hefur heyrt er fólk mjög ánægt með þetta. Kóteletturnar voru sérvaldar, sérstaklega þykkar og feitar,“ segir Björn. 

Kótilettur þykja herramannsmatur meðal íbúa á Blönduósi.
Kótilettur þykja herramannsmatur meðal íbúa á Blönduósi.

Nota tímann á meðan hart er í ári 

Hann segir að hvatinn sé ekki að gera þetta í auglýsingaskyni heldur sé hugmyndin einfaldlega að gefa af sér.

Aðspurður segir hann vissulega hart í ári hjá fyrirtækinu, en þá sé tíminn notaður til að gera eitthvað fyrir aðra. „Jú, jú, það er hart í ári. Það er nánast ekki neitt að gera. Við erum með skólamat en það eru svo fáir í skólanum. Svo gefum við leikskólanum að borða. Að öðru leyti eru þetta lítil sem engin viðskipti,“ segir Björn.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Loka