Gert að skila kerrunni eftir búslóðarflutning

Lögregla þarf oft á tíðum að hafa afskipti af fólki …
Lögregla þarf oft á tíðum að hafa afskipti af fólki sem hefur keypt þýfi á netinu. Ljósmynd/Lögreglan

Algengt er að fólk sem kaupir notaðan varning á sölusíðum á netinu sé að kaupa þýfi. Fyrir vikið þarf lögregla reglulega að hafa afskipt af fólki og biðja það um að skila hjólum, bílkerrum, verkfærum og tölvubúnaði til réttmætra eigenda. Lögreglumaður kallar eftir því að fólk gangi úr skugga um að seljendur séu raunverulegir eigendur hlutanna áður en gengið er frá kaupum.

Þjófnaðarfaraldur hefur geisað á höfuðborgarsvæðinu síðan veirufaraldurinn kom upp að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Er hann talinn eiga rætur sínar í skorti á fíkniefnamarkaði.

„Það er gríðarlega mikið um reiðhjólaþjófnaði, þar sem klippt er á víralása inni í hjólageymslum eða bakgörðum þar sem fólk heldur að þetta sé öruggt,“ segir Guðmundur.

Hann segir að þjófar séu í mörgum tilfellum þeir sem glími við eiturlyfjavanda, ekki sé um að ræða einhvers konar þjófagengi. „Oft er það þannig að þjófarnir eru að nota þetta sem fararskjóta og leggja þetta síðan frá sér í einhverju reiðileysi. Í þeim tilfellum eru þeir oft að leita sér að einhverju öðru til þess að stela en fara með reiðhjól þegar ekkert annað finnst,“ segir Guðmundur Pétur.

Reiðhjólauppboð lögreglu samanstendur af hjólum sem finnast í reiðileysi.
Reiðhjólauppboð lögreglu samanstendur af hjólum sem finnast í reiðileysi. mbl.is/Ernir

Hann segir að söluverð hjóla á sölusíðum sé oft á tíðum lágt.„Fyrir vikið eru margir sem bíta á agnið. Því er algengt að við tökum af fólki hluti þegar það er að nota þá. Við tökum af þér hlutinn þótt þú hafi keypt hann á bland.is á hundrað þúsund krónur,“ segir Guðmundur Pétur.

Hann segir allur gangur á því hvernig stuldir koma í ljós. „Oftast hafa réttmætir eigendur upp á hlutunum og tilkynna okkur það,“ segir Guðmundur.

Fékk að klára túrinn

Hann segir að töluvert sé um að bílkerrum sé stolið. „Ég tók eina kerru af manni sem var með drekklaðna kerru af búslóð. Hann taldi sig hafa keypt ódýra kerru. Hann fékk að klára túrinn en kerruna fékk hann ekki aftur,“ segir Guðmundur.

Guðmundur vill árétta það fyrir fólki að biðja um pappíra sem sýna réttmætan eiganda áður en gengið er frá kaupum. Sértaklega á það við um nýlega og dýra hluti. „Það þarf að sannreyna upprunann. Auðvitað eru flestir strangheiðarlegir og eru að selja sína hluti, en svo er líka hellingur af fólki sem er að auglýsa þýfi,“ segir Guðmundur.

Hann segir að lögreglan hafi takmarkaðan tíma til þess að sinna öllum ábendingu. Hann segir að ef fólk telur sig réttmæta eigendur hluta sem seldir eru á sölusíðum á netinu, þá sé skilvirkast að ganga sjálfur úr skugga um að þú sért réttmætur eigandi. „Ef þetta er óumdeilt, þá skerumst við í leikinn strax,“ segir Guðmundur.

Þjófnaðarfaraldur ríður yfir höfuðborgarvæðiið.
Þjófnaðarfaraldur ríður yfir höfuðborgarvæðiið. mbl.is/Þorkell

„Ég fann þetta“

Guðmundur segir fólk sem selji þýfi á netinu eigi yfir höfði sér dóm fyrir þjófnað. „Við fáum alls konar svör þegar við spyrjum hvers vegna fólk er að selja viðkomandi hlut. Oft segist fólk vera að selja fyrir einhvern annan sem það man ekki hvað heitir. Svo segja margir: ég fann þetta, og það getur reynst erfitt að sannreyna að fólk hafi ekki fundið hlutinn. Þetta gengur meira út á að réttmætur eigandi fái hlutinn frekar en að fólki sér refsað. Að sjálfsögðu reynum við það þó,“ segir Guðmundur Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert