Drög að forgangslista um bólusetningu tilbúin

Fréttir af bóluefnaþróun við kórónuveirunni hafa vakið upp bjartsýni margra. …
Fréttir af bóluefnaþróun við kórónuveirunni hafa vakið upp bjartsýni margra. Nú eru tilbúin drög að reglugerð um hverjir verða fyrstir til að verða bólusettir. mbl.is/Hari

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að búið sé að vinna drög að reglugerð um forgangsröðun þegar kemur að bólusetningu við Covid-19. Heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínufólk verður í forgangi og þá viðkvæmir hópar samfélagsins.

„Við erum með reglugerð í drögum og þar erum við með forgangsröð sem er að mestu leyti í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til, þar sem heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínustarfsfólk er í forgangi,“ sagði Svandís við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. 

„Reglugerðadrögin eru komin og við erum bara að fara yfir þau.“

Ráðamenn þjóðarinnar, eru þeir framarlega í röðinni?

„Það er ekki beinlínis fjallað um það í reglugerðardrögunum sem ég er með fyrir framan mig núna.“

Endalok faraldursins í augnsýn

Fréttir af bóluefnaþróun undanfarið hafa vakið upp bjartsýni meðal Íslendinga sem og jarðarbúa allra. Nú síðast sagði lyfjaframleiðandinn Moderna að bóluefni þeirra við kórónuveirunni skilaði árangri í 95% tilfella. Þá hafa sérfræðingar hérlendis lýst yfir ánægju sinni með þetta.

Reglugerð um vottorð á landamærum fyrir vikulok

Svandís segir að til skoðunar sé að erlendir ferðamenn geti komið hingað til lands án þess að sæta sóttkví með því að framvísa vottorði um að þeir hafi áður smitast af kórónuveirunni og séu því með mótefni. Fólk sem myndar mótefni hér á landi fær slíkt vottorð og er þetta gert víða um heim. Skipaður var starfshópur um þessi mál að því er fram kom á Vísi.

„Ég býst við því að vottorðahópurinn skili sínum niðurstöðum fyrir vikulokin. Þar erum við að skoða möguleika á gagnkvæmum viðurkenningavottorðum frá tilteknum löndum. Ég vænti þess að við reynum að halda því áfram og þá frekar að við reynum að tína inn fleiri lönd eftir því sem þeim viðræðum vindur fram.“

Ekki kom fram í máli Svandísar hvaða lönd um ræðir.

Víða aðstæður sem standast ekki kröfur

Svandís var spurð að fleiru. Til að mynda lýsti hún því yfir að augljóslega mætti gera betur hvað smitvarnir varðar á Landakotsspítala. Þá var henni tíðrætt um mikilvægi þess að bygging nýs Landspítala gengi hratt og örugglega fyrir sig. Enda ekki vanþörf á en eins og Svandís sagði sjálf skapast víða aðstæður innan heilbrigðiskerfisins þar sem ekki er unnt að uppfylla ströngustu kröfur nútímans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert