Efling setur spurningarmerki við þátttöku Festu

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í erindi sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sent Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, spyr hún hvort Festa telji það rétt að leggja nafn sitt við verðlaunaafhendingar á vegum SA. Tilefnið er, að sögn Sólveigar, þátttaka Festu í Hvatningarverðlaunum jafnréttismála á vegum Samtaka atvinnulífsins.

„Efling - stéttarfélag hefur á síðustu misserum leitast við að beina sjónum að launaþjófnaði og öðrum brotum sem framin eru á íslenskum vinnumarkaði, sér í lagi gegn verka- og láglaunafólki,“ skrifar Sólveig.

Efling hefur vakið athygli á meintum launaþjófnaði að undanförnu en  heildarupphæð krafna vegna vangoldinna launa sem Efling hefur unnið á síðustu 5 árum er rúmur milljarður króna.

„Samtök atvinnulífsins hafa ekki ljáð baráttunni gegn launaþjófnaði og annarri brotastarfsemi á vinnumarkaði stuðning. Þvert á móti hafa samtökin stigið fram til varnar fyrir slíka starfshætti. Má þar nefna tilvik þar sem láglaunafólk, sem gripið hafði til þess örþrifaráðs að fara í setuverkfall til að fá laun sín greidd, fékk bréf frá lögmanni SA þar sem þeim var hótað bótakröfu, sektum og viðurlögum,“ skrifar Sólveig. 

„Með hliðsjón af þessu langar mig að spyrja hvort Festa telji að framganga Samtaka atvinnulífsins varðandi launaþjófnað og aðra brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði sé í samræmi við hugmyndafræði og viðmið Festu um samfélagsábyrgð og hvort að Festa telji það rétt að leggja nafn sitt við verðlaunaafhendingar á vegum SA.“

Erindið sendir Sólveig á Tómas Njál Möller, formann Festu, og Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert