Má tífalda veltu kvikmynda og tölvuleikja?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, talaði um mikilvægi kvikmyndaframleiðslu …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, talaði um mikilvægi kvikmyndaframleiðslu fyrir markaðssetningu Íslands á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stór tækifæri felast í því að styðja enn frekar við kvikmyndagerð í landinu og hækka endurgreiðslur af framleiðslukostnaði í 35% líkt og gert er í löndum sem keppa við Ísland um verkefni. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi flokksins sem nú stendur yfir.

Vísaði hann þar í kvikmyndastefnu sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur lagt fram og miðar að því að gera kvikmyndaframleiðslu að fjórðu stoð íslensks efnahagslífs.

„Árið 2019 störfuðu um 26 þúsund manns við ferðaþjónustu á Íslandi. Getum við sett okkur markmið um það að 10-15 þúsund muni starfa í kvikmyndum og tölvuleikjum innan fárra ára og veltan fari úr tæpum 30 milljörðum króna í 300 milljarða? Það er hægt með markvissri stefnu,“ sagði Sigurður Ingi.

Benti hann á að ferðavenjukönnun sýndi að tæplega 40% þeirra ferðamanna sem hingað koma tækju ákvörðun eftir að hafa séð Ísland á sjónvarpsskjánum eða hvíta tjaldinu.

Framsókn komið stefnumálum að

Sigurður Ingi kom víða við í ræðu sinni. Sagði hann að þrátt fyrir áföll sem dunið hefðu á landinu síðustu mánuði hefði Framsókn tekist að koma þeim málum að, sem brunnu á flokksmönnum fyrir kosningar.

Lánasjóði íslenskra námsmanna hefði verið umbylt með stofnun nýs og öflugs Menntasjóðs, námsmönnum til heilla. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hefði leitt umbætur í húsnæðismálum með hlutdeildarlánum og látið barnamálin til sín taka. „Ég bið ykkur að fylgjast vel með næstu daga,“ sagði Sigurður, án þess að skýra nánar hvað væri í vændum.

Þá hefði flokkurinn náð að koma „stórkostlegu byggðamáli“ í gegn með Loftbrú, sem jafnar aðstöðu þeirra sem búa fjarri höfuðborginni og þurfa að sækja þangað þjónustu og afþreyingu. Sambærilegt mál um jöfnun flutningskostnaðar raforku væri í vinnslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert