Miðflokkurinn vill fjölga ráðuneytum

Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins en samþykkt var á fundinum að …
Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins en samþykkt var á fundinum að fella niður embætti varaformanns. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Á aukalandsþingi Miðflokksins var samþykkt málefnaályktun sem meðal annars felur í sér fjölgun ráðuneyta.

Lagabreytingar voru samþykktar með 85% greiddra atkvæða. Tilgangur lagabreytinganna var meðal annars að fjölga í stjórn flokksins, ná fram aukinni valddreifingu og auka vægi flokksmanna við ákvarðanatökum og í flokksstarfi. Hver stjórnarmaður verður formaður nefndar sem ber ábyrgð á ákveðnu sviði í starfi flokksins og tengir flokksmenn við stjórn flokksins, segir í tilkynningu en meðal annars var samþykkt að fella niður embætti varaformanns flokksins. Ein manneskja var í framboði í embættið fyrir fundinn, Vigdís Hauksdóttir. 

Frétt RÚV

Með lagabreytingunum munu flokksmenn eiga greiðari aðgang að stjórn flokksins og þar með auka lýðræði og auka áhrif almennra flokksmanna.

„Stórefla þarf landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Hér liggur eitt af stærstu tækifærum þjóðarinnar til framtíðar þar sem heilnæmi matvæla, fæðuöryggi, matvælaöryggi og vistvæn orka á góðu verði munu spila lykilhlutverk. Formaður flokksins hefur nú nýverið mælt fyrir ítarlegri tillögu til þingsályktunar um aðgerðir sem miða að því að styrkja rekstrarafkomu matvælaframleiðenda til að verja greinina og þau fjölþættu verðmæti sem í henni felast fyrir samfélagið,“ segir í ályktun fundarins. 

Aukalandsþing Miðflokksins leggur þunga áherslu á að þessu mikilvæga máli verði fylgt fast eftir. „Þá samþykkir aukalandsþing Miðflokksins einnig að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem fer með málefni landbúnaðar- og matvælaframleiðslu í landinu. Þá verði fylgt fast eftir ítarlegri skoðun á því misræmi sem komið hefur fram um innflutning og tollamál landbúnaðarafurða.“

mbl.is