Ríður á að „keyra þetta í mark“

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. Ljósmynd/Almannavarnir

„Það sem við höfum séð gerast áður er að þegar vel gengur þá verður erfiðara að halda úthaldinu. Þess vegna hvetjum við fólk til að hjálpa okkur að keyra þetta áfram,“ sagði  Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna í morgun.

Rögnvaldur var spurður hvort almenningur væri nú kærulausari en áður. Sagði Rögnvaldur að svo kunni að vera. Hins vegar sé gríðarlega mikilvægt að almenningur taki þátt í því að halda veirunni í skefjum. „Fólk má ekki missa sig, þetta er enn í gangi og er víða í samfélaginu. Þetta er alls ekki búið. Nú ríður á að halda úthaldinu og keyra þetta í mark.“

Regína Ástvaldsdóttir.
Regína Ástvaldsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Verkefnum velferðarsviðs fjölgar

Auk Rögnvalds var Regína Ástvaldsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á fundinum. Velferðarsviðið rekur m.a. dagdvalir, vistheimili og neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Talsvert álag hefur verið á deildinni sökum ástandsins, en Regína sagði verkefnum hafa fjölgað mjög í faraldrinum.

Að hennar sögn hefur fjárhagsaðstoð til heimilinna aukist um 30% auk þess sem tilkynningum barnavernd hefur sömuleiðis fjölgað. Spurð hvort áfram yrði tryggt að heimilislaust fólk gæti leitað í neyðarskýli sagði Regína svo vera. 

Heimilislausar konar geta nýtt úrræðið og framhald á því hefur verið tryggt fram eftir vetri. Þá verða neyðarskýli fyrir bæði kyn opin. „Við stefnum á að eitt skýli verði opið fyrir hvort kyn í vetur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert