Eina þjóðin í Evrópu sem upplifir verðbólgu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði á Alþingi að viðspyrna stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins verði mun erfiðari ef fyrirtækjum verður ekki haldið á lífi.

Hún sagði Ísland vera einu þjóðina í kórónuveirufaraldrinum sem hafi orðið fyrir gengishruni og það verulegu vegna krónunnar. „Við erum eina þjóðin í Evrópu sem hefur upplifað verðbólgu á krepputímum,“ sagði hún og bætti við að helsta haldreipi þeirra sem slái skjaldborg um krónuna sé að það verði alltaf minna atvinnuleysi á Íslandi út af krónunni.

Þorgerður sagði að atvinnuleysi væri að að fara upp í 12% á Íslandi en í Þýskalandi væri það til dæmis innan við 5%. Röksemdafærslan varðandi krónuna og atvinnuleysið falli því um sjálfa sig. Atvinnuleysi á Íslandi væri meira en hjá flestum Evrópuþjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Hún sagði einnig að Íslendingar væru tveimur til þremur aðgerðapökkum á eftir öðrum þjóðum.

Spurði hún Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hvort ríkisstjórnin sé að taka nægilega stór skref miðað við þennan mikla mun á atvinnuleysi og að efnahagsaðgerðir séu ekki í samræmi við sóttvarnaaðgerðir. Einnig sagði hún ferðaþjónustuna kalla eftir meiri fyrirsjáanleika.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún sagði fá lönd ef nokkur vera eins háð ferðaþjónustu og Ísland og því haldist það í hendur við atvinnuleysið. Hún nefndir ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í en benti á að þau muni ekki bjarga fyrirtækjum ein og sér. Fyrirtækin þurfi að fara í endurskipulagningu og bankarnir spili þar lykilhlutverk.

Hún sagði verkefnið við að bregðast við veirunni hafa verið langt og að heilt yfir hefði það tekist nokkuð vel. „Í fyrsta sinn í langan tíma leyfi ég mér að vera raunverulega bjartsýn yfir því að bóluefni komi fljótlega,“ sagði hún og vonaðist til að árið 2021 verði ár viðspyrnunnar og að hún muni fást við það „lúxusverkefni“. Hún sagðist taka undir með Samtökum atvinnulífsins hversu mikilvægt er að vera með skýra sýn á næstu skref. „Mér finnst við heilt yfir hafa verið með það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert