Misskilningur um smit í Kringlunni

Ýmsir fréttamiðlar greindu frá því í dag að kórónuveirusmit hafi …
Ýmsir fréttamiðlar greindu frá því í dag að kórónuveirusmit hafi komið upp í Kringlunni. Það reyndist ekki vera rétt og hefur þetta nú verið leiðrétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki greindist smit í verslunarmiðstöðinni Kringlunni eins og greint hefur verið frá á ýmsum fréttamiðlum. Misskilningur átti sér stað og hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra leiðrétt þetta. Í raun kom upp smit í skrifstofuhúsnæði sambyggðu Kringlunni en ekki í verslunarrými Kringlunnar. 

Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Sterk viðbrögð verslunareigenda

„Við nánari skoðun á þessu máli þá sjáum við að það er um tvö smit að ræða sem komu upp í skrifstofubyggingu við Kringluna en ekki í verslunarmiðstöðinni sjálfri. Uppruni þeirra smita er óþekktur en rakning stendur yfir. Við teljum ekki að þörf sé á að grípa til sérstakra aðgerða vegna þessa.

Annars geta smit komið upp hvar sem er og því mikilvægt að fólk stundi einstaklingsbundnar sóttvarnir og gæti að fjarlægðamörkum.“

Hann segir að viðbrögð verslunareigenda hafi verið sterk við þeim fregnum að smit hafi komið upp í Kringlunni, enda er ekkert sem bendir til þess.

Uppfært 16:59

Enn gætir misskilnings um málið meðal einhverra fréttamiðla. Sums staðar hefur verið fullyrt að starfsfólk á skrifstofu Kringlunnar hafi smitast. Það er ekki rétt, heldur komu upp tvö smit í skrifstofubygginguturni sem sambyggður er verslunarmiðstöðinni Kringlunni. 

Samkvæmt tilkynningu sem Kringlan hefur sent fjölmiðlum segir meðal annars: „Forsvarsmönnum Kringlunnar er ekki kunnugt um að nýleg smit hafi komið upp á meðal starfsfólks verslana eða veitingastaða Kringlunnar og hefur almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra staðfest það. Rétt er að fram komi að sóttvarnir eru í hæsta forgangi í verslunarmiðstöðinni og reglum um sóttvarnir hefur verið fylgt í hvívetna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina