Gefa þrjú tonn af ýsu til Fjölskylduhjálpar

Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf.
Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf. Ljósmynd/mbl.is

Fiskvinnslufyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. hefur sent sex bretti af lausfrystri ýsu til Fjölskylduhjálpar. Fyrirtækið er staðsett í Grundarfirði og Ragnar og Ásgeir ehf. fluttu farminn frítt suður. 

Sex bretti samsvara þremur tonnum af fiski.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Smári Guðmundson, framkvæmdastjóri hjá Guðmundi Runólfssyni hf., að gengið hafi vel hjá fyrirtækinu og sælla sé að gefa en að þiggja.

Tröllakassar af lausfrystri ýsu á leiðinni til Reykjavíkur. Ragnar og …
Tröllakassar af lausfrystri ýsu á leiðinni til Reykjavíkur. Ragnar og Ásgeir ehf. fluttu farminn endurgjaldslaust. Ljósmynd/Facebook

Ómetanleg gjöf

Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður Fjölskylduhjálpar Íslands segir í samtali við mbl.is gjöfina ómetanlega. Gjafir sem matvælafyrirtæki hafa verið að gefa undanfarið geri það að verkum að hægt er að gefa veglegar matargjafir með góðum mat.

Fiskur sé t.d. ekki eitthvað sem hægt sé að kaupa inn fyrir matargjafir.

Ásgerður segir að fisknum verði bæði úthlutað á höfuðborgarsvæðinu sem og á Reykjanesi. 553 fjölskyldur hafa sótt um matarúthlutun fyrir þessa viku bara á höfuðborgarsvæðinu, þá eru ótaldar umsóknir á Reykjanesi.

Ásgerður bendir á að fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu sækja rafrænt um á heimasíðu fjölskylduhjálpar.

25 sjálfboðaliðar flokkuðu matargjafir frá KS

Ásgerður Jóna segir það mikið starf að flokka gjafirnar og gefa. 25 sjálfboðaliðar unnu við að taka á móti veglegri matargjöf Kaupfélags Skagfirðinga í dag og raða í poka. Gjöfin frá KS er vegleg og matur sem Fjölskylduhjálp getur annars aldrei boðið upp á.

Næstu úthlutanir Fjölskylduhjálpar eru: 

Á höfuðborgarsvæðinu: á morgun (þriðjudag) og miðvikudag í Iðufelli. 

Reykjanesbæ: fimmtudag og föstudag. 

Í næstu viku verður einnig úthlutað og gerir Ásgerður ráð fyrir 18-19 úthlutunardögum í desember endar mikið að gera fyrir jólin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert