Flughált í öllum landshlutum

mbl.is/Helgi Bjarnason

Vetrarfærð er á landinu og verið að hreinsa eftir nóttina. Veðuraðstæður eru þannig að búast má við flughálku í öllum landshlutum segir á vef Vegagerðarinnar.

Flughálka er á Kjósarskarði og í Grafningi. Hálka eða hálkublettir á fáfarnari vegum á Suðvesturlandi en greiðfært á öllum leiðum í kringum Reykjavík.

Flughálka er á Bröttubrekku og á Svínadal, þungfært á Vatnaleið og ófært á Fróðárheiði. Verið er að kanna ástand á öðrum leiðum á Vesturlandi.

Ófært er á Kleifaheiði og Hálfdán. Flughálka er á Gemlufallsheiði, Klettshálsi og Þröskuldum en þæfingsfærð á Súðavíkurhlíð. Enn er verið að kanna ástand á öðrum leiðum á Vestfjörðum.

Flughálka er á Þverárfjalli og á milli Hofsóss og Ketilsáss. Hálka eða hálkublettir á vegum á Norðurlandi. Hálka eða krapi á þeim leiðum sem búið er að kanna.

Flughálka er á Tjörnesi og Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Þæfingsfærð er á Hófaskarði og Hálsum. Krapi, hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum á Norðausturlandi.

Hálka er á Fjarðarheiði en krapi á Fagradal, annars hálka eða hálkublettir á leiðum austanlands en greiðfært frá Reyðarfirði með ströndinni að Höfn.

Hálka á flestum leiðum á Suðausturlandi, þó er krapi á Breiðamerkursandi. Flughálka er á nokkrum leiðum í uppsveitum á Suðurlandi en annars hálka eða hálkublettir. Greiðfært er á þjóðvegi 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert