Kemur til greina að bólusetja á kjörstöðum

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Vonast er til að skipulag vegna fjöldabólusetningar við kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu verði tilbúið fyrir jól. Hugsanlegt er að húsnæði fyrir kjörstaði verði notað.

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ragnheiður Ósk segir nokkra möguleika vera í stöðunni, enda óvissuþættirnir margir. Ekki er ljóst hvenær bóluefnið kemur til landsins og heldur ekki hversu stórir skammtarnir verða. „Það má búast við því að tíminn verði mjög skammur frá þvi að við vitum hvað við erum að fá mikið magn og þangað til það kemur. Þess vegna þurfum við að vinna með nokkrar sviðsmyndir,“ segir hún.

Verið er að kortleggja þá forgangshópa sem fá bóluefnið fyrst og reyna að forskrá þá í bólusetningakerfi heilsugæslunnar svo að lítið mál verði að finna þá þegar þar að kemur. Einnig er verið að búa til sviðsmyndir í tengslum við almenning.

Fólk bíður eftir því að komast í skimun við Suðurlandsbraut.
Fólk bíður eftir því að komast í skimun við Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir myndu leggjast á eitt 

„Þetta er mikil vinna og margra,“ segir Ragnheiður Ósk og nefnir að sveitarfélögin starfi með heilsugæslunni við undirbúninginn ef magn bóluefnisins verður mikið. „Ef það kemur mjög mikið bóluefni og við getum farið að bólusetja tugi þúsunda munum við taka helgi í það þar sem allir leggjast á eitt og koma saman.“ Um verður að ræða fólk á vegum sveitarfélaganna, lögreglunnar, björgunarsveita og heilsugæslunnar. „Þetta verða stórar aðgerðir ef það verður en það er alls ekkert víst að svo verði,“ segir hún.

Spurð hvar bólusetningin fer fram segir hún það fara eftir magninu. Húsnæðið við Suðurlandsbraut þar sem skimun hefur farið fram verður til taks og þangað geta þó nokkuð margir komið. Varðandi forgangshópana verður farið inn á hjúkrunarheimili, sambýli og fleiri slíka staði. Einnig er verið að skoða hvort hægt verður að nota kjörstaði ef mikið af bóluefni kemur í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert