Þú getur ekki verið vinur okkar beggja!

Börkur Gunnarsson rithöfundur.
Börkur Gunnarsson rithöfundur. Árni Sæberg

„Þetta er gleði- og glottbók og það var ógeðslega gaman að skrifa hana. Síðustu þrjár bækur mínar hafa verið frekar þungar og að þessu sinni langaði mig að hafa þetta aðeins léttara og skemmtilegra. Allar þessar sögur rifjuðust hratt upp fyrir mér og ég rúllaði bókinni eiginlega bara upp,“ byrjar Börkur Gunnarsson, rithöfundur, leikstjóri og blaðamaður með meiru, að lýsa nýjustu skáldsögu sinni, Frásögu Jóns Jónssonar af því hvernig á að ná árangri í starfi og einkalífi.

Jón þessi, eða Nonni, svo við gerumst aðeins heimilislegri, er blaðamaður sem áður vann á jaðarsettum smáblöðum en stefnir nú hægt upp metorðastigann á ritstjórn Morgunblaðsins. Með áherslu á orðið „hægt“.

Börkur kveðst hafa lokið við söguna sumarið 2019 en tók svo snarpan snúning á henni síðasta vor; skar niður tvo þriðju hluta. „Ég kann ófáar skemmtisögur af fólki í fjölmiðlum, ekki síst á Morgunblaðinu, þannig að af nægu var að taka. Ég ákvað hins vegar að einblína á senurnar sem færðu söguna áfram,“ segir Börkur sem starfaði lengi sem blaðamaður, meðal annars á Morgunblaðinu, í fleiri lotum en einni.

Stórkostlegar dívur

Ýmis nöfn koma fyrir í bókinni sem lesendur kannast við af síðum Morgunblaðsins. „Agnes Bragadóttir og Kolbrún Bergþórsdóttir eru þarna; stórkostlegar dívur. Það var virkilega gaman að vinna með þeim. Þær hötuðu að vísu hvor aðra sem var ekkert persónulegt, að ég held. Moggahöllin í Hádegismóum er hins vegar ekki nema nokkur þúsund fermetrar og alls ekki nógu stór fyrir tvær svona stórar dívur og sterka karaktera sem þurfa sitt pláss. Fyrst vann ég með Kollu og þegar ég færðist yfir á deildina hjá Agnesi þá sagði Kolla við mig, grafalvarleg á svipinn: „Þú getur ekki verið vinur okkar beggja!““

Börkur kom að vonum eintaki til þeirra um leið og bókin kom úr prentvélinni. „Agnes hringdi nokkrum dögum síðar og sagðist hafa hlegið út í gegn en Kolla hefur ekkert látið í sér heyra. Annaðhvort er hún brjáluð yfir því hvernig mynd ég dreg upp af henni eða hún er reið yfir því að ég hafi ekki gert betri bók.“

Hann skellir upp úr.

– Þetta er samt fyrst og fremst skáldskapur, er það ekki rétt skilið?

„Margar uppákomurnar í bókinni eru raunverulegar, sannar sögur, en bókin er uppdiktaður sannleikur. Ég set kjánaprikið hann Nonna inn í þessar raunverulegu aðstæður til að sjá hvernig hann spjarar sig. Hann er með mikið álit á sjálfum sér, blessaður, og heldur að hann sé stærri og merkilegri en hann er.“

Nánar er rætt við Börk í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert