Tjón og þrif vegna blæðingar bætt

Dæmi eru um að bílar séu stórtjónaðir eftir blæðinguna.
Dæmi eru um að bílar séu stórtjónaðir eftir blæðinguna.

Vegagerðin hyggst bæta ökumönnum það tjón sem hlotist hefur af blæðingum í klæðingu á fjölmörgum stöðum frá Borgarnesi að Öxnadalsheiði. Á það bæði við um þrif og tjón eftir atvikum. Á þetta sérstaklega við um þá sem urðu fyrir tjóni áður en tilkynning um blæðingu í klæðingu barst. Vegagerðin hvetur alla tjónþola til að fylla út tjónaskýrslu. 

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að blæðingin í klæðingunni líti út fyrir að vera meiri en áður hefur sést án þess að hann geti fullyrt um það. 

„Lögin segja að á meðan við höfum ekki tilkynnt það eða merkt það þá er ábyrgðin Vegagerðarinnar,“ segir G. Pétur. Hann hvetur þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni að fylla út tjónaskýrslu á vef Vegagerðarinnar. 

Blæðing er eins kona tjöruklessa sem getur skotist á aðra …
Blæðing er eins kona tjöruklessa sem getur skotist á aðra bíla. Ljósmynd/Aðsend

„Ef þetta eru bara þrif þá getur fólk farið á næstu þjónustustöð og þá höfum við bætt fólki þrif og það fengið endurgreitt,“ segir G. Pétur.

Segir olíunni ekki um að kenna

Að sögn hans valda þungaflutningarnir blæðingunum. Dæmi eru um að blæðingin slettist á smærri bíla og segir hann að talsverð hætta geti skapast í aðstæðunum. Hitabreytingar og raki eru sagðar ástæða þess að aðstæðurnar koma upp. 

G.Pétur segir að undanfarin ár hafi verið notuð lífolía í klæðinguna. Hann segir að ekki sé gengið út frá því að hún sé valdur að þessu og að ekki sé litið svo á að hún sé orsakavaldur umfram aðrar tegundir olíu. 

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. mbl.is

Er eitthvað sem Vegagerðin hefði getað gert öðruvísi ? 

Nei, ekki að öðru leyti en því að það er hægt að leggja lengri kafla af malbiki. Það er komið malbik að Þjórsá og upp í Borgarnes. Við þurfum að geta lengt þessa kafla til að koma í veg fyrir þetta,“ segir G. Pétur. 

Hann segir að malbikið sé 3-5x dýrara en klæðingin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert