Hættustig í gildi á Seyðisfirði

Facebook-síða Almannavarna

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands, lýstu yfir hættustigi vegna skriðufalla á Seyðisfirði á tólfta tímanum í gærkvöldi. Um 50 hús voru rýmd undir Botnabrún í gær. 

Húsin voru rýmd að skriður tóku að falla úr hlíðinni síðdegis í gær. Síðan hafa fleiri skriður fallið sem meðal annars hafa náð niður í garða í efri hluta bæjarins á svæðum sem voru rýmd. Jarðvegur í neðri hluta hlíða er orðinn vatnsmettaður eftir miklar rigningar síðustu sex daga og spáð er áframhaldandi NA-átt með úrkomu sem verður líklega að mestu snjókoma til fjalla.

Um 120 manns yfirgáfu heimili sín í gær og enn er talin hætta á skriðuföllum. Gripið var til þessara aðgerða til þess að draga úr líkum á slysum á fólki en enn má búast við eignatjóni. Enn gengur aur úr skriðusárinu í Botnum sem hefur náð inn í bæinn. Skriða féll síðast rétt um tíuleytið í gærkvöld en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum.

Óvissustigi vegna skriðuhættu var lýst yfir á Austfjörðum í gær og er enn í gildi. Skriðuhætta er á Austurlandi vegna mikilla rigninga undanfarið og jarðvegur í neðri hluta hlíða er orðinn vatnsmettaður. Skriður hafa fallið neðarlega í hlíðum á Eskifirði, Seyðisfirði og við utanverðan Fáskrúðsfjörð. Spáð er áframhaldandi NA-átt með úrkomu.
Hættustigi er lýst yfir ef að heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum, þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert