Píratar bjóðast til að styðja minnihlutastjórn

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Píratar hafa boðist til að styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna ef stjórnarslit yrðu vegna sóttvarnabrota fjármálaráðherra, gegn því að gengið verði til kosninga í vor og að breytingarákvæði um stjórnarskrána yrði komið í gegn. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Tillaga Pírata kemur í kjölfar fregna af því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands, hafi verið á meðal gesta í samkvæmi sem lögreglan leysti upp í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Fjármálaráðherra hefur beðist afsökunar á að hafa ekki verið meira á varðbergi, en hann hefur einnig lýst því yfir að hann hafi ekki í hyggju að segja af sér.

„Við erum bara að bjóða þeim aðra leið út úr þessu sem felur ekki í sér svona mikla vanvirðingu við samstöðu þjóðarinnar og við það verkefni sem við stöndum í akkúrat núna,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata í samtali við mbl.is.

„Við erum að gefa þeim aðra leið til að klára kjörtímabilið í ljósi þess að Bjarni er búinn að gefa út að hann ætli ekki að axla ábyrgð og segja af sér,“ segir Þórhildur, en hún segir að viðbrögð fjármálaráðherra hafi ekki verið trúverðug, og að ástæðurnar sem hann gefi fyrir því að hann segi ekki af sér séu „einstaklega hrokafullar“.

„Þær fela í sér að hann telji sig yfir allt hafinn; lög og reglu líka. Þetta er ekki venjan neins staðar nema á Íslandi að þeir telji sig stærri en verkefnin sem þeir sinna,“ segir Þórhildur og vitnar í orð fjármálaráðherra í kjölfar atviksins. Í viðtali við mbl.is sagði Bjarni að hann hefði ekki hugsað um að segja af sér og vilji „áfram sinna þeim stóru verkefnum sem mér eru falin og eru gríðarlega mikilvæg“.

„Heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands sagði af sér vegna þess að hann braut sóttvarnareglur. Landlæknir Skotlands gerði slíkt hið sama. Þau voru nú heldur betur að sinna mikilvægum verkefnum. En þau vita það að þeirra persóna stóð í vegi fyrir þessum mikilvægu verkefnum og ákváðu þess vegna að víkja til þess að hægt væri að vinna þessi mikilvægu verkefni í friði. Þetta er siðferði sem skortir í íslenskri pólitík, og Bjarni er svona skínandi fínt dæmi um það,“ segir Þórhildur.

Vilja breytingarákvæði um stjórnarskrána í gegn

Annar fyrirvari þess að Píratar séu tilbúnir að styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna er að flokkurinn fái breytingarákvæði um stjórnarskrána í gegn. Myndi það ákvæði fela í sér að hægt yrði að breyta stjórnarskránni með samþykkt Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því yrði hægt að breyta stjórnarskrá á einu kjörtímabili í stað tveggja.

Jafnvel með stuðningi Pírata myndi minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna ekki ná meirihluta í þingi; til þess þyrfti stuðning fleiri stjórnarandstöðuflokka. Til að mynda minnihlutastjórn þyrftu Framsókn og VG til dæmis stuðning Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar til að mynda meirihluta.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is