Funduðu með íbúum Seyðisfjarðar

Frá fyrri íbúa fundi fyrir Seyðfirðinga.
Frá fyrri íbúa fundi fyrir Seyðfirðinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúafundur var á Seyðisfirði í kvöld vegna hættustigs almannavarna og rýmingaráætlunar sem þar er í gildi eftir að aurskriður féllu í bænum fyrir jól. 

„Þetta var í raun upplýsingafundur og við fengum að sjá tímalínu á hreinsunarstarfinu, fórum yfir stöðuna á þessu svæði, hverjar væntingarnar eru frekar en niðurstöður. Það voru kannski vonbrigði fyrir marga að það var engin afgerandi niðurstaða um þetta en það er bara of snemmt að spá fyrir um það,“ segir Aðalheiður L. Borgþórsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði og fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings. 

Verið sé að safna saman gögnum og vinna úr þeim áður ákvarðanir verða teknar um framhaldið. 

„Þeir gátu ekki sagt hvenær rýmingu yrði aflétt eða neitt slíkt. Þetta var aðallega til að leyfa íbúum að fylgjast með því sem er að gera. Við stefnum á fund fljótlega aftur þegar þetta er skýrara. Það er alveg viðbúið að það verður ekki leyft að búa aftur á ákveðnu svæði og fólk vill þá vita hvernig verður með uppkaup og annað, það er enn óljóst hvernig verður með það,“ segir Aðalheiður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert