Afhendingaráætlanir bóluefna breytast stöðugt

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Áætlanir um afhendingu bóluefna við Covid-19 breytast stöðugt og nær dreifingaráætlun hérlendis einungis til loka mars, að sögn sóttvarnalæknis. Sem stendur er útlit fyrir að bóluefni fyrir 30.000 manns komi til landsins á fyrsta ársfjórðungi en það getur breyst. 

Moderna mun dreifa þeim 120.000 skömmtum sem samið hefur verið um jafnt yfir árið, þeir duga fyrir 60.000 manns. 

„Þeir dreifa þessu jafnt yfir árið samkvæmt því plani sem nú liggur fyrir, það kann að breytast. Þessar áætlanir eru stöðugt að breytast í samræmi við framleiðslugetu þeirra, ef þeir ná að framleiða meira þá fáum við meira, ef eitthvað kemur upp á er hætta á því að við getum fengið minna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Erfitt að segja hvort stór hluti verði bólusettur fyrir sumarið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í síðustu viku að þorri þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir sumarið. Eins og áður segir liggja þó einungis fyrir áætlanir til loka mars. 

Þannig að það er í raun ekki útlit fyrir að stór hluti þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið?

„Það er erfitt að segja. Við eigum náttúrulega eftir að heyra frá AstraZeneca sem er ekki komið með markaðsleyfi. Svo höfum við fengið ádrátt um það frá Pfizer um að þeirra framleiðslugeta muni aukast. Við bara vitum það ekki enn þá, höfum ekki fengið neinar tölur eða staðfestingu um það,“ segir Þórólfur. 

Tekur tíma að sjá fjölgun smita

Fimm smit greindust innanlands í gær og fjögur smit daginn þar á undan. Áður höfðu verið uppi áhyggjur um að smitum myndi fjölga mikið í kjölfar jóla og áramóta. 

Miðað við tölur dagsins erum við væntanlega ekki að sjá þá miklu fjölgun sem búist var við að kæmi til eftir áramótin?

„Ekki enn þá en tíminn er bara að byrja. Það er ekkert hægt að fullyrða neitt um það þar sem það tekur viku fyrir fólk að veikjast að meðaltali, eftir viku er helmingur þeirra sem hafa smitast búinn að fá einkenni,“ segir Þórólfur. 

Vísbendingar um að börn smitist frekar

Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að líklegra sé að börn smitist af nýju og smitandi afbrigði kórónuveirunnar, sem hefur verið kennt við Bretland, en eldri afbrigðum. Þórólfur segir að vísbendingar séu um það.

„En það er ekki komin nein afgerandi niðurstaða í það. Því var velt upp í Bretlandi. Menn eiga eftir að fá nákvæmari niðurstöður í það,“ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert