„Miklu minna um sýk­ing­ar en er í hefðbundnu ári“

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson.

„Við höfum orðið vör við að það er minna um almennar sýkingar. Það er síðan talsvert minni notkun á sýklalyfjum,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Segir hann að talsvert hafi dregið úr hefðbundnum öndunarfærasýkingum frá því að faraldur kórónuveiru kom fyrst hingað til lands. Þannig láti færri kanna hvort um minniháttar sýkingar sé að ræða á tímum kórónuveiru. 

Hægt að halda dánartíðni niðri

„Þetta var á tímabili orðin helmingsfækkun. Það er kannski ekki alveg svo mikið núna en það er samt sem áður miklu minna um sýkingar en er í hefðbundnu ári. Þá er alveg töluvert minni notkun á sýklalyfjum.“

Aðspurður segir Óskar að hugsanlegt sé að tengja megi saman lægri dánar- og sýkingartíðni. Hægt sé að halda dánartíðni niðri ef sýkingar haldast áfram í lágmarki. 

„Sýkingar hafa áhrif á lífslíkur. Það eru engin vísindi á bakvið þetta en það er bara lógískt. Þetta hefur kannski ekki stór áhrif en með skynsamlegri hegðun er hugsanlegt að lífslíkur aukist. Með því að þvo hendur og spritta minnka líkur á öðrum veikindum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert